139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

Landeyjahöfn og næstu skref í samgöngum milli lands og Eyja.

[11:30]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa átt sér stað. Ég vil þó minna á að ef við hefðum ekki haft hrædda ráðamenn hjá þjóðinni fyrir nokkrum árum, þegar tekin var ákvörðun um Landeyjahöfn, væri núna verið að ljúka við gerð jarðganga á milli lands og Eyja. Þar þarf ekki að berjast við náttúruöflin. Þetta skulu menn hafa í huga. Það kemur tími fyrir það síðar.

Landeyjahöfn er vandamál og þó að hæstv. ráðherra segist ekki geta samið við náttúruöflin er það ekki alls kostar rétt vegna þess að reynslan hefur sýnt að menn sem þekkja á náttúruöflin og hafa barist við þau áratugum og öldum saman, hafa náð að virkja þau bæði til lands og sjávar. Reynsla sjómanna, reynsla þeirra sem búa við sjávarsíðuna er á þann veg. Þess vegna þarf að bregðast við þannig að vandamálið sem Landeyjahöfn er í dag verði ekki viðvarandi heldur aðeins til skamms tíma. En þá þarf að hefjast handa, hæstv. ráðherra, og vera ekki að bíða og bíða. Við vitum að sandburðurinn frá Eyjafjallagosinu hefur minnkað um 95%. Þetta er því að komast í eðlilegar aðstæður en samt sem áður þarf að bregðast við.

Sandburðurinn að siglingunni, að hafnarmynninu, verður við 2,5 metra ölduhæð og þar þarf að vera hægt að grípa inn í. Þau skip sem nú eru til staðar ráða ekki við það og þá þarf að bregðast við með öðrum hætti. Fastur dælubúnaður á sjávarbotni í innsiglingunni væri eins og fast dæluskip og gæti alltaf unnið fram fyrir sig. Það er röng tala að þetta kosti 400–1.000 milljónir kr. Rétt tala er 300–400 milljónir hámark eins og nánast er búið að semja um (Forseti hringir.) við dæluskipið Skandiu. Þetta eru hlutir (Forseti hringir.) sem ég vil vekja athygli á, það verður að bregðast við, það verður að koma fluginu af stað aftur með þeim hætti sem var og horfast í augu við að þetta er vandamál sem menn verða að leysa með því að taka fast og ákveðið á því.