139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[12:03]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þingmaður tók eftir, vegna þess að hann hlýddi greinilega vel á ræðu mína, þá sagði ég að hugsanlega væri þetta skárri leið en ýmsar aðrar leiðir sem hefðu verið nefndar í stöðunni. Ég vakti hins vegar athygli á að þetta er óvenjulegt mál og viðkvæmt vegna þess að það er sama þing og tók ákvörðun um að höfða málið sem er nú að taka ákvörðun um að tilteknir einstaklingar sem sitja í landsdómi núna haldi áfram að fjalla um málið. Það er eins og ég sagði líka í ræðu minni hugsanlega minna inngrip, vægara, en ef kosnir væru nýir menn til að sinna því og þar af leiðandi skárra, en engu að síður er þetta auðvitað gallað. Hafi hv. þingmaður hlýtt jafn vel á ræðu mína og virtist af fyrra andsvari hans þá hefur hann væntanlega líka heyrt að ég vísaði til þess að ef við færum í endurskoðun á lögum um landsdóm og ráðherraábyrgð hefðu komið fram í þessu máli fjölmargir gallar sem gæfu okkur tilefni til að gera breytingar.

Hvað varðar það sem hv. þingmaður nefndi um nefndir og heimildir þeirra til að kalla til gesti er allt rétt sem hann sagði um það. Nefndum er það í sjálfsvald sett. Þeim ber engin skylda til að kalla til gesti, sérfræðinga á einhverjum sviðum til að ræða við þá um efnisatriði frumvarpa. Það eru hins vegar að mínu mati vönduð vinnubrögð en þegar látið er hjá líða að gera það þegar um það koma fram málefnalegar óskir á vettvangi nefnda þá er það að mínu mati mjög gagnrýnisvert.