139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[12:08]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að elta ólar við allt sem fram kom í ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar sem var að mínu mati að meira eða minna leyti einhver pirringur sem ég veit ekki alveg hvaða skýringar á að finna á. Ég saknaði þess hins vegar að hann útskýrði ekki hvers vegna hann teldi að hægt hefði verið að komast hjá því að ræða við sérfræðinga um málið vegna þess að ég held að bæði hann og ég mundum eiga auðveldara með að taka afstöðu til frumvarpsins á grundvelli góðs rökstuðnings ef við hefðum átt slíkt samtal við einhvern sérfræðing á þessu sviði. Ég held að það væri auðveldara fyrir okkur báða að komast að niðurstöðu.

Hv. þingmaður hefur vafalaust heyrt að ég hafði ýmsa fyrirvara á afstöðu minni til málsins, ég held að það hafi ekki farið fram hjá hv. þingmanni. Og kynni það ekki að vera m.a. vegna þess að fyrir fram finnst mér erfitt að staðhæfa um réttmæti þessarar niðurstöðu án þess að hafa fengið þá skoðun sem ég hefði talið eðlilegt að fram færi í nefndinni um þetta atriði?