139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[13:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég fagna því að hann styðji tillögu okkar sjálfstæðismanna um að kalla til sérfræðinga fyrir allsherjarnefnd til að fara yfir þetta vegna þess að hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að hann hefði einmitt gert það sjálfur, séð ástæðu til að leita álits hjá sérfræðingum um hvort þetta væru óeðlileg vinnubrögð, eins og hv. þingmaður orðaði það, eða bryti hugsanlega á bága við lög. Hann fagnaði því að þetta væri gert.

Hv. þingmaður svaraði því þannig að hann vildi ekki kveða upp úr um það hvort málsmeðferðin alveg frá því að Alþingi tók þá ákvörðun að ákæra Geir H. Haarde væri með þeim hætti að hún hefði skaðað stöðu sakborningsins. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að það hafi gerst. Hann svaraði því þannig að það hefði hugsanlega valdið, eins og hann orðaði það, töfum eða vanbúnaði á réttarstarfinu sem slíku. (Forseti hringir.) Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann sé enn sáttur við það að hafa greitt atkvæði með því að ákæra fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde.