139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[14:31]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingar á lögum um landsdóm þar sem verið er að framlengja kjörtímabil landsdóms þar til búið er að klára mál og þá ákæru á hendur fyrrverandi hæstv. ráðherra, Geir Hilmari Haarde. Mér fannst hv. þm. Birgir Ármannsson fara mjög vel yfir það í lokaorðum sínum áðan, að hæstv. innanríkisráðherra — sem að sjálfsögðu varð að leggja niður mannréttindaráðherraheitið eftir að hann tók þátt í þessari grímulausu aðför og pólitísku réttarhöldum yfir fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, Geir Hilmari Haarde — lagði fram frumvarp í nóvember þar sem meðal annars var tekið á því að framlengja skipun landsdóms ásamt frekari inngripum. Það mál var, eins og svo margt annað, vanbúið þegar mælt var fyrir því. Ef ég man rétt voru það tveir eða þrír sem töluðu í málinu, svo var málið tekið af dagskrá og hefur ekki verið sett á dagskrá síðan.

Síðan hafa liðið fjórir, fimm mánuðir. Þá er saksóknarnefndinni, og þeim hv. þingmönnum sem þar sitja, falið að koma með þetta frumvarp til laga til að bregðast við því sem fyrir löngu er fyrir séð. Það segir kannski ýmislegt að frá því að ákveðið var að gefa út ákæru af hálfu meiri hluta Alþingis á hendur Geir Hilmari Haarde skuli vinnubrögðin vera á þann veg að afgreiða þurfi frumvarpið á tveimur dögum. Hvers konar vinnubrögð eru þetta eiginlega? Það er þyngra en tárum taki að þurfa að fjalla um þetta með þessum hætti. Þegar málið fer síðan til allsherjarnefndar þá gefst ekki einu sinni tími til að kalla til sérfræðinga, eins og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, hv. þingmenn Sigurður Kári Kristjánsson og Birgir Ármannsson, gerðu kröfu um að yrði gert. Það hefur verið vitað og það hefur legið ljóst fyrir svo mánuðum skiptir að þetta stóð fyrir dyrum. Þetta er náttúrlega til háborinnar skammar og ekkert annað.

Síðan kemur hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, sem situr í saksóknarnefndinni, situr reyndar ekki í hv. allsherjarnefnd, lögfræðimenntaður maður, og segist ekki vera viss um hvort af frumvarpinu muni hugsanlega hljótast réttarspjöll. Þetta er náttúrlega ekki bjóðandi, svona vinnubrögð, að gera hlutina með þessum hætti. Í ljósi alls, virðulegi forseti, þá er þetta ferill málsins frá upphafi.

Við munum vel að þingmannanefnd var skipuð til að fara yfir skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Hún skilaði síðar af sér, vann það verk í margar vikur og marga mánuði. Niðurstaðan út úr þeirri vinnu varð sú að nefndin var þríklofin. Tillaga kom um það frá sumum að fjórir fyrrverandi ráðherrar yrðu ákærðir en aðrir lögðu til að þrír fyrrverandi ráðherrar yrðu ákærðir. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í þingmannanefndinni, hv. þingmenn Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir, lögðu síðan til að enginn yrði ákærður. Þetta varð afrakstur þeirrar vinnu og í septembermánuði á síðasta ári fjölluðum við um þetta og mér er sú umræða mjög minnisstæð. Ég sat í þingsal og hlustaði á nánast hverja einustu ræðu. Ég varð hins vegar svo sár og svekktur og reiður að ég treysti mér varla til að halda ræðu sjálfur, ég var svo niðurbrotinn yfir vinnubrögðum Alþingis, þeim vinnubrögðum sem ég horfði upp á. Mig langar að rifja aðeins upp og deila því með hv. þingmönnum, og þeim sem eru að hlusta, hvað ég upplifði þegar hæstv. forsætisráðherra flutti ræðu sína þar sem hún skar úr um það að hún mundi ekki styðja ákærurnar. Það var mjög sérkennilegt andrúmsloftið hér í þingsal.

Ég man eftir því að sumir hv. þingmenn Vinstri grænna gengu á dyr undir ræðu hæstv. forsætisráðherra, þeim var brugðið. Í framhaldi af því hófst, eins og ég sá það, einhver sú ömurlegasta og mest niðurlægjandi atburðarás sem ég hef orðið vitni að á ævi minni þegar nokkrir hv. þingmenn Samfylkingarinnar fóru í þann leiðangur sem mun verða festur við nöfn þeirra um alla eilífð. Það voru ótrúleg vinnubrögð og þeim til mikillar skammar alla tíð og mun verða svartur blettur í sögu Alþingis. Það sem gerðist þar var svo augljóst að það sáu það allir sem vildu. Að mínu mati var það einn dapurlegasti dagur í lífi mínu, 28. september 2010, þegar þetta mál var afgreitt frá þinginu, afskaplega dapurlegur dagur. Þar var staðfest það versta sem til er í hverjum manni þegar þessir hv. þingmenn Samfylkingarinnar ákváðu að handvelja hverjir skyldu ákærðir og hverjir ekki. Það var ótrúlega niðurlægjandi, sérstaklega fyrir þá að sjálfsögðu og fyrir þingið í heild sinni. Sá blettur mun aldrei hverfa af hinu háa Alþingi.

Þessi atburðarás var staðfesting á því að sumra áliti að hér var um ekkert annað en pólitísk réttarhöld að ræða. Það átti að gera upp pólitísk átök, hluti sem hingað til hafa verið gerðir upp í kosningum, hluti sem kjósendur hafa verið látnir gera upp. Það uppgjör var fært inn í þingsalinn og það var afskaplega dapurlegt. Sumir hv. þingmenn stjórnarinnar og allir þingmenn stjórnarandstöðunnar, held ég, greiddu atkvæði eftir sannfæringu sinni (Gripið fram í.) — nei, kallar einn hv. þingmaður, ég átta mig ekki á hver það er. En mér fannst, ég fullyrði ekki neitt um það, mjög áberandi hvernig sumir hv. þingmenn Samfylkingarinnar höguðu sér. Ég upplifði þetta allt á þann veg að hinir ágætu þingmenn sem sátu í rannsóknarskýrslunefndinni hefðu ekki getað séð hlutina ganga til enda með þessum hætti.

Það er ljóst, að mínu mati, að þetta var alger staðfesting á pólitísku uppgjöri í þingsölum. Ég hef velt því dálítið fyrir mér síðan: Á hvaða vegferð erum við? Mun þetta verða breyting til framtíðar? Eftir næstu kosningar, þegar kemur ný ríkisstjórn — og það er 100% öruggt, leyfi ég mér að fullyrða, að það verður ekki vinstri stjórn — verða æðimörg tilefni fyrir nýjan stjórnarmeirihluta til að draga suma hæstv. ráðherra til ábyrgðar og kæra þá fyrir landsdómi með mun gildari rökum en voru notuð gegn Geir Hilmari Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Munu hv. þingmenn sem þá sitja á Alþingi halda í þá vegferð? Það getur vel verið, ég veit það ekki. Það gæti verið pólitískt uppgjör, þetta mundi halda áfram. Það sér nefnilega ekki fyrir endann á þessu máli í heild sinni. Þessi vegferð er hugsanlega rétt að byrja og ég ítreka enn og aftur að hér inni eru margir hæstv. ráðherrar sem mun einfaldara væri að færa rök fyrir að draga fyrir landsdóm. Hæstv. utanríkisráðherra bendir á sig. Ég tel að það sé ekki hæstv. utanríkisráðherra en ástæða væri til að draga suma aðra fyrir landsdóm, og með sömu rökum.

Það kom líka í ljós, þegar hæstv. innanríkisráðherra mælti fyrir frumvarpi sínu í nóvember, með enn frekari inngripum en hér er verið að gera, að sumir hv. þingmenn líta á sig sem saksóknarvaldið. Það kom mjög vel fram í máli hæstv. innanríkisráðherra þegar verið var að ræða vantrauststillögu á ríkisstjórnina, en hann sagði orðrétt, með leyfi forseta:

„Vilja menn kosningar til að fá nýja verkstjórn á rannsókn efnahagsbrotanna eða vilja menn hafa þau í okkar forsjá? Þar er ég verkstjórinn. Ég heiti mönnum því að við munum standa vörð um þessa rannsókn. Ég hef áður sagt að ef við leiðum ekki til lykta þessa rannsókn mun íslenska þjóðin hafa móralska timburmenn í 300 ár.“

Þetta segir hæstv. innanríkisráðherra í umræðum á Alþingi fyrir örfáum dögum. Ekki er nóg með að framkvæmdarvaldið virði ekki þá skiptingu sem er milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds heldur seilist það inn í dómsvaldið líka. Þrískipting valds virðist ekki vera til í huga hæstv. innanríkisráðherra. Hann telur sig sjálfan vera persónugerving þess að halda þurfi utan um rannsóknir. Þetta er alveg ótrúlegt en þetta afhjúpar einmitt hugsun hæstv. innanríkisráðherra og hvernig hann lítur á stöðu sína, það er ekkert öðruvísi. Hann lítur svo á að hann einn, prívat og persónulega, geti tryggt rannsókn, sem ekki er á hans vegum og á ekki að koma inn á hans borð — ég geng út frá því sem vísu að þeir sem rannsaka þessi mál og dæma mundu ekki einu sinni hlusta á það sem hæstv. innanríkisráðherra hefði fram að færa ef honum dytti í hug að hafa samband við þá og reyna að hafa áhrif á þá. Það er hreint með ólíkindum hvernig þetta hefur verið gert.

Ég talaði áðan um að sú vegferð sem hér væri hafin, þ.e. að færa pólitískt uppgjör inn í þingsalinn, sem er í þessu tilviki gert grímulaust, væri hugsanlega rétt að byrja. Ég vona svo sannarlega að svo verði ekki. En það gæti farið svo að menn vildu halda áfram að gera pólitíkina upp hér og draga menn fyrir landsdóm, fyrrverandi eða núverandi ráðherra.

Ég velti því stundum fyrir mér hvernig fjallað verður um það sem gerðist hér þegar draga fer úr reiði og heift í þjóðfélaginu, sem gerist því miður allt of hægt. Þegar skýrara ljósi verður varpað á það sem gerðist í kjölfar hrunsins, þær ákvarðanir sem til að mynda voru teknar með setningu neyðarlaganna — helstu sérfræðingar um allan heim hafa talið það vera það eina sem íslensk stjórnvöld hefðu í raun getað gert á þeim tíma, að neyðarlögin hafi bjargað Íslandi. Sá sem stýrði þeim aðgerðum var fyrrverandi forsætisráðherra Geir Hilmar Haarde, hann hefur fengið lof fyrir það frá helstu sérfræðingum heims í efnahagsmálum. En ákveðið er af meiri hluta Alþingis að draga þann sama mann fyrir landsdóm, það varð niðurstaðan, svo dapurleg sem hún er.

Virðulegur forseti. Það stendur upp úr hvað varðar frumvarpið sem við ræðum hér, þó að ég hafi verið að ræða aðdragandann að málinu, að það er þinginu til háborinnar skammar að vera að bregðast við aðstæðum sem fyrirséðar voru fyrir mörgum mánuðum, þ.e. að kjörtímabil landsdóms væri að renna út. Frumvarp er lagt fram í nóvember, meðal annars með ákvæði um að framlengja tíma landsdóms. Síðan líður desember, janúar, febrúar, mars og apríl og það er komið fram í maí, sem er sjötti mánuðurinn, og þá loks er flutt frumvarp sem afgreiða verður með afbrigðum á tveimur dögum. Því er vísað til hv. allsherjarnefndar og vegna tímaskorts er ekki hægt að kalla til sérfræðinga til að fara yfir hvort þetta valdi hugsanlega réttarspjöllum í málinu. Þetta er ótrúlegt, algerlega ótrúlegt, vegna tímaskorts er það ekki hægt af því að dagarnir eru það fáir eftir. Það hefði kannski verið hægt að færa eitthvað til en auðvitað hefði fyrir löngu átt að vera búið að gera þetta. En þetta er allt gert með því lagi að ekki er nokkur einasti bragur á því og það verður aldrei neinn bragur á þessu máli.

Ég sagði í upphafi máls míns að þetta yrði vonandi svartasti bletturinn á Alþingi alla tíð, vonandi gerist ekkert verra en þetta, ekkert jafnslæmt hefur gerst hingað til. Um er að ræða grímulausa pólitíska aðför. Það sást vel á viðbrögðum margra hv. þingmanna sem greiddu þessari ákæru atkvæði sitt hve vonbrigðin voru mikil með það hvernig málið endaði í heild sinni, að farin skyldi sú lágkúrulegasta leið sem hægt var að fara, að láta einn ráðherra sitja í súpunni, að ákæra einn ráðherra. Enda voru það ekki bara hv. þingmenn sem brugðust þannig við heldur sáum við slík viðbrögð í þjóðfélaginu, almenningi var nánast öllum lokið og var mjög miður sín yfir þessari ákvörðun Alþingis, að þetta skyldi hafa orðið niðurstaðan.

Virðulegi forseti. Tími minn er senn á þrotum. Ég vona að þetta mál klárist fljótt og vel. Ég hef þá trú að málinu verði vísað frá, út í hafsauga, og dómur verði ekki felldur í því. Það er mín bjargfasta trú út frá því sem ég hef kynnt mér um þetta mál. Þetta er svartur blettur á Alþingi. Guðjón Þórðarson, hinn mikli fótboltaþjálfari, orða þetta mjög vel: Þetta er grímulaus aðför kommúnista að fyrrverandi forsætisráðherra Geir Hilmari Haarde.