139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[16:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar, sem ég las rétt áðan og ég ætla að lesa aftur af því að margir hafa bæst í salinn, stendur svo, með leyfi forseta:

„Öllum ber réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli.“

Ég endurtek: óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Við ræðum mál sem breytir reglunum um þennan „óháða“ dómstól — ég fullyrði að hann er hvorki óháður né óhlutdrægur, hann er skipaður af Alþingi og ákæran var samþykkt á Alþingi. Það er ekkert í þessu óhlutdrægt eða óháð vegna þess að Alþingi ákærir og Alþingi kýs meiri hlutann af dómurunum, átta af 15, og Alþingi skipar ákæranda. Ég get því ekki greitt atkvæði með þessu frumvarpi, ég greiði atkvæði gegn þessu.