139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[16:26]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það er ekki annað hægt en fara yfir það hversu ósanngjörn sú málsmeðferð og þetta landsdómsmál allt saman er. Það hljóta allir að sjá hversu óréttlát sú málsmeðferð er gagnvart sakborningnum í málinu að alþingismenn gefi út ákæru eða samþykki ákæru, að sömu alþingismenn kjósi sér dómara til að dæma um sakarefni málsins, að sömu alþingismenn kjósi sér saksóknara til að flytja málið fyrir dómstólnum og þegar þær ákvarðanir hafa allar verið teknar þá reyna alþingismenn, fyrst hæstv. innanríkisráðherra og síðan hv. þingmenn í saksóknarnefnd, að breyta lögunum eftir að leikurinn er hafinn. Á sama tíma þarf sakborningurinn, Geir H. Haarde, að ganga frá Heródesi til Pílatusar til að fá sér skipaðan verjanda. Hugsið ykkur hvers konar skömm þetta er. Og að tala um réttláta málsmeðferð og réttaröryggi og að þeir sem standa fyrir þessum (Forseti hringir.) málatilbúnaði þykist hafa einhverja velþóknun á þeim manni sem þeir drógu sjálfir fyrir dóminn og krefjast sakfellingar yfir fyrir refsivert athæfi er til skammar.