139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

heildarendurskoðun á Stjórnarráði Íslands.

675. mál
[17:32]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tek undir að líklega hafi herra Google verið notaður þegar verið var að semja þetta frumvarp því að hér ber að líta lög sem ég vissi ekki einu sinni að væru til og þeim er verið að breyta, eins og í CXC. kafla, breyting á lögum um réttaraðstoð við alþjóðadómstólinn sem fjallar um stríðsglæpi í fyrrum Júgóslavíu. Líka er verið að breyta lögum um réttindi eftirlitsmanna vegna samnings um hefðbundinn herafla í Evrópu og samnings um opna lofthelgi þannig að farið hefur verið ofan í allt lagasafnið.

Það sem vekur athygli mína í athugasemdum við lagafrumvarpið er það sem ég kom inn á áðan, að taka eigi fagheitin út. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Í stað fagheitisins komi hugtakið „ráðherra“ eða „ráðuneyti“.“

Svo kemur það sem ég var að vísa í:

„Í þeim lögum þar sem tveir eða fleiri ráðherrar koma við sögu verði vísað til þess eða þeirra ráðherra sem ekki bera meginábyrgð á framkvæmd laganna með því að tilgreina það stjórnarmálefni sem farið er með. Þegar augljóst er af samhengi viðkomandi ákvæðis hvaða stjórnarmálefni er um að ræða er látið duga að vísa til „hlutaðeigandi ráðherra“ eða „hlutaðeigandi ráðuneytis“

Þá langar mig til að spyrja hv. þm. Einar K. Guðfinnsson þar sem hann er fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: Er leiðin sem er verið að fara, með því að taka út þau heiti sem við höfum reynslu af núna, ekki akkúrat eins og þegar hæstv. utanríkisráðherra tók bréf hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til Brussel í því aðlögunarferli sem við erum í, henti því í ruslið og skrifaði nýtt í ljósi þess að um væri að ræða að utanríkismál en ekki sjávarútvegs- og landbúnaðarmál?