139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

heildarendurskoðun á Stjórnarráði Íslands.

675. mál
[17:56]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Já, þetta eru fróðlegar vangaveltur um það hvaða fyrrverandi forsætisráðherrar hafi komið að þessu. Það er rétt að hæstv. forsætisráðherra kom inn á það í ræðu sinni áðan að haft hefði verið samráð við starfsmenn Stjórnarráðsins og marga fyrrverandi forsætisráðherra þannig að fróðlegt væri að fá svar við þessu síðar í umræðunni.

Það sem mig langaði að nefna er einmitt það sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni og sneri að drögum að ályktun sem átti að leggja fyrir sameiginlega þingmannanefnd, sneri meðal annars að efnahagsmálum og líka stjórnarráðsbreytingunum sem var fagnað. Finnst hv. þingmanni ekki sérstakt að varðandi mál sem ekkert tengjast þessari Evrópusambandsumsókn, að maður skyldi ætla, séu embættismenn í Brussel og í utanríkisþjónustunni að útbúa ályktanir þar sem farið er inn á málefni sem eru alls óskyld? (Forseti hringir.) Telur hv. þingmaður að þetta sé ekki nokkuð sem þurfi að ræða frekar og kafa dýpra ofan í?