139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

heildarendurskoðun á Stjórnarráði Íslands.

675. mál
[19:30]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Stundum vinnur tíminn með þingmönnum og stundum ekki. Tíminn vann með stjórnarandstöðunni í Icesave-málinu og nú vinnur tíminn með stjórnarandstöðunni í því máli sem hér er til umræðu, þ.e. þessu frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna heildarendurskoðunar á lögum um Stjórnarráð Íslands. Þetta er annað frumvarpið sem lagt er fram til að breyta Stjórnarráði Íslands. Því var hafnað að þessi frumvörp yrðu rædd saman í fyrradag og hér er þetta þá komið til umræðu.

Mig langar í upphafi að fara aðeins yfir orð hæstv. forsætisráðherra, hvernig ummæli hennar hafa fallið hér og hvernig hún hefur tuktað til þingmenn. Orðrétt hefur hún sagt að þingmenn hafi verið illa upplýstir og ekki búnir að kynna sér málin, að þeir skilji jafnvel ekki málin og að málflutningurinn sé ekki boðlegur Alþingi.

Frú forseti. Ég verð að reka þessi ummæli hæstv. forsætisráðherra beint heim til föðurhúsanna því að eftir lestur þessa frumvarps er ég búin að komast að því að verið er að kratavæða Stjórnarráðið, það er verið að embættisvæða það og síðast en ekki síst er verið að laga það að Evrópusambandinu.

Í frumvarpinu er verið að þurrka út heiti á ráðuneytum og embættisheiti ráðherra. Mér þótti þetta frekar skrýtið og taldi upphaflega að þetta væri allt til þess að forsætisráðherra hefði hér einræðisvald. Svo er þó ekki, það hef ég fengið staðfest af starfsmanni Stjórnarráðsins sem er hér í húsinu. Ég spurði hvort ég mætti vitna til hans og hann taldi að það væri ekkert mál því að þessir pappírar væru meira og minna allir tilbúnir. Ég er alveg undrandi á að hér skuli vera komin fram frumvörp þar sem undirbúningsvinnan er á engan hátt með og ekki til umræðu á þinginu. Ég vildi jafnvel biðja hæstv. forsætisráðherra að staðfesta þetta við mig því að hér fara fram umræður á göngunum sem eru ekki í þingsal. Nú er þetta komið fram.

Ég áttaði mig nefnilega á þessu og spurði þennan ákveðna fulltrúa um nokkuð. Þegar ég fór að lesa frumvarpið betur sá ég að það er búið að raða hér hinum ýmsu verkefnum á heitislausa ráðherra og það á að breyta öllu í ráðherra. Nú ætla ég, frú forseti, að nefna dæmi um hvernig ég gerði þessa uppgötvun mína.

XXI. kafli heitir til dæmis „Breyting á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið …“ og þar stendur í a-lið:

„Í stað orðanna „utanríkisráðuneytis Íslands“ í 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: þess ráðuneytis er fer með utanríkismál.“

Hér stendur í b-lið:

„Í stað orðanna „utanríkisráðuneytis Íslands erlendis“ í 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: fulltrúa þess ráðuneytis er fer með málefni sendiráða, fastanefnda og ræðisskrifstofa Íslands erlendis.“

XXII. kafli heitir „Breyting á lögum um framboð og kjör forseta Íslands …“

Í a-lið stendur:

„Í stað orðsins „Forsætisráðherra“ í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur: Sá ráðherra er fer með málefni embættis forseta Íslands.“

Í kafla um breytingu á lögum um bæjarnöfn og fleira segir:

„Í stað orðsins „umhverfisráðuneyti“ í 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: því ráðuneyti er fer með skipulagsmál.“

Hér er breyting á lögum um skógrækt. Í stað umhverfisráðherra kemur: Sá ráðherra sem fer með ræktun nytjaskóga á bújörðum fer með málefni sem fjallað er um í þessum kafla.

Hér kemur breyting á lögum um landgræðsluna:

„Í stað orðsins „landbúnaðarráðherra“ í 13. gr. laganna kemur: þess ráðherra er fer með ríkisjarðir.“

Hér stendur í breytingu á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna:

„Í stað orðsins „iðnaðarmálaráðuneytisins“ í 57. gr. laganna kemur: þess ráðuneytis er fer með málefni iðnaðar.“

Frú forseti. Hér gæti ég lengi talið upp. Ég er búin að merkja þetta allt með gulum miðum því að þetta er svo víða og allt í einu rann upp fyrir mér það ljós að svona standa málin. Það er búið að kortleggja Stjórnarráðið, það er búið að afmá heiti á ráðherrum og á ráðuneytum. Það er búið að vinna þessa undirbúningsvinnu svo ótrúlega vel að allir málaflokkar eiga sér orðið vísan stað og þegar þetta frumvarp verður að lögum, ef það verður það, ef það er meiri hluti fyrir því í þinginu, skal látið til skarar skríða, hrært í pottinum og upp úr honum koma málaflokkar sem snúa að, tengjast og eru sambærilegir stjórnkerfi Evrópusambandsins.

Það er alveg greinilegt að eins og til dæmis þar sem á að standa „fjármálaráðherra“ er ýmist talað um „ráðherra er fer með tekjuöflun ríkisins“ eða „ráðherra er fer með fjárreiður ríkisins“. Samkvæmt frumvarpinu gæti það alveg eins hent að þessi verkefni yrðu falin tveimur ráðherrum.

Hér koma líka inn þessar breytingar sem hefur þurft að innleiða við upptöku EES-samningsins eins og til dæmis um vinnumarkaðinn, fjármálamarkaðinn eða mannréttindamál. Eins og fram hefur komið í umræðum í dag er þetta lagafrumvarp hvorki fleiri né færri en 546 greinar. Svona eru starfsmenn Stjórnarráðsins búnir að fara í gegnum lagasafn Íslands, í gegnum 546 lög, gera á þeim breytingar og afmá ráðherraheitin vegna þess að nú skal Evrópuvæða Stjórnarráðið. Mér þykir mjög miður að þessi vinnubrögð skuli vera hér viðhöfð þar sem einungis einn stjórnmálaflokkur styður inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Það væri gaman ef einhverjir þingmenn Vinstri grænna væru í salnum svo hægt væri að beina til þeirra spurningum um hvort þeir vissu af þessu. Nú er málið orðið langtum stærra en það eitt að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, að koma hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í burtu. Nú liggur skýrt fyrir að það er búið að umbylta Stjórnarráðinu áður en frumvarpið kemur til 1. umr. Ég skora á þingmenn að standa í fæturna þegar þetta frumvarp verður hér til afgreiðslu, frumvarp sem átti að lauma í gegnum þingið, þessar veigamiklu breytingar sem kollvarpa íslensku samfélagi og íslenskri stjórnsýslu sem hefur dugað vel hingað til ef frá er talið bankahrunið sem varð hér á haustdögum 2008 sem byggði fyrst og fremst á Evrópureglum eins og allir vita. Sú eftirlitsstofnun sem átti að fylgjast með bankakerfinu brást einnig enda var þar byggt á sömu Evrópureglum.

Ég ætla að grípa niður í dæmi til að rökstyðja mál mitt. Ég hef kynnt mér ansi vel þau lög og þær reglugerðir sem Alþingi hefur þurft að taka upp vegna lögleiðingar EES-reglugerða og -laga. Í þessu frumvarpi er að finna nýja mállýsku, ef svo má segja. Hér stendur til dæmis um breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga:

„Í stað orðsins „innanríkisráðherra“ í 3. mgr. 20. gr. laganna kemur: þess ráðherra er fer með málefni persónuréttinda.“

Þetta er alveg nýtt í íslensku lagamáli. Hér kemur í breytingu á lögum um tóbaksvarnir:

„Í stað orðsins „umhverfisráðherra“ í 11. mgr. 8. gr. og 6. mgr. 9. gr. laganna kemur: ráðherra er fer með málefni mengunarvarna.“

Og meira úr sömu breytingu:

„Í stað orðsins „innanríkisráðherra“ í 6. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 12. gr. laganna kemur: ráðherra er fer með framkvæmd löggjafar um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.“

Og enn meira:

„Í stað orðsins „menntamálaráðherra“ í 8. mgr. 9. gr. laganna kemur: ráðherra er fer með íþróttamál.“

Frú forseti. Ég sit í allsherjarnefnd og hún kemur til með að fá þetta mál til afgreiðslu. Nú þegar ætla ég að fara fram á það við hæstv. forsætisráðherra, sem greinilega er gengin úr þingsal, að þau skjöl, þær upplýsingar og þau gögn sem liggja að baki þessu frumvarpi verði tafarlaust send allsherjarnefnd. Við þetta verður ekki búið eða unað. Hér er búið að ræða breytingar á Stjórnarráðinu í bráðum tvo heila sólarhringa og fyrst núna kemur hér upp að það sé búið að vinna þetta mál með þessum hætti. Hér á að gera lagabreytingu samkvæmt frumvarpinu með forsetaúrskurði þar sem þessum ráðuneytum verður fundið nýtt hlutverk, þar sem málaflokkunum verður fundinn nýr staður eftir uppstokkun samkvæmt uppskrift Evrópusambandsins.

Frú forseti. Hér er um fullkomna blekkingu að ræða við framlagningu þessa frumvarps. Hér hefur hæstv. forsætisráðherra haft rúman tíma til að tjá sig um þessi mál og koma með upplýsingar fyrir þingið. Í stað þess að koma hreint fram, segja þingmönnum satt og rétt frá, ég fer ekki fram á meira, segja allan sannleikann en ekki hálfsannleikann, hefur hæstv. forsætisráðherra brugðið á það ráð að væna þingmenn um að vera illa upplýstir og ekki búnir að kynna sér málin nógu vel.

Ég sagði við hæstv. forsætisráðherra í gær að ég væri búin að kynna mér málefni þess frumvarps sem þá lá fyrir. Í morgun og í dag hef ég kynnt mér málefni þessa frumvarps sem nú er til umræðu og þá blasir við að öll vinnan og gögnin og þau skjöl sem liggja að baki þessu frumvarpi, allur sannleikurinn, eru lokuð inni í forsætisráðuneytinu. Þetta er ámælisvert, frú forseti, og raunverulega veit ég ekki hvernig á að taka á þessum málum í þinginu, svo alvarlegt er þetta.

Það er farið með mál eftir mál í gegnum þingið án þess að spyrða það við Evrópusambandið, því að það er það sem Samfylkingin er sífellt að gera, afmá fingraför Evrópusambandsins af máli eftir mál og beita til þess hálfsannleik. Svona eru vinnubrögðin og við þetta verður ekki unað.

Á sameiginlegum fundi íslensku þingmannanna og Evrópuþingmannanna hér í síðustu viku kom í ljós frá þingmönnum Evrópusambandsins að til dæmis 20/20-áætlunin væri eftir uppskrift þeirra. Ég var búin að spyrja um það og benda á það en fékk sífellt nei. Það var sagt að ég væri illa upplýst að halda þessu fram. En þetta er nokkuð sem ríkisstjórnin hefur tamið sér, sérstaklega ráðherrar og þingmenn Samfylkingarinnar, að vísa til þess að aðilar og þingmenn séu illa upplýstir og illa að sér. Meira að segja er þessum rökum beitt þegar rætt er um Evrópusambandið úti í þjóðfélaginu, spunameistarar bloggsíðnanna grípa gjarnan til þeirra raka að þeir sem gagnrýna Evrópusambandið séu illa upplýstir og jafnvel illa gefnir. Ekki málefnalegt en því miður er þetta farið að færast inn í þingsal, samanber orð hæstv. forsætisráðherra frá því í gær um að við skildum ekki málið.

Það er eins gott að einhverjir hér lesi þau frumvörp sem ríkisstjórnin leggur fram, frú forseti, og það sé hér eitthvert ístað í þinginu. Ef ríkisstjórnin væri einráð værum við líklega löngu komin inn í Evrópusambandið. Þetta er mjög alvarlegt mál og ég vonast til þess, frú forseti, að forseti beiti sér tafarlaust í því að þeim gögnum og því plani sem liggur að baki þessu frumvarpi, um það hvar hvaða málaflokkur á heima eða réttara sagt hvernig búið er að teikna upp málaflokkana í Stjórnarráðinu, í forsætisráðuneytinu og undir hvaða ráðherra þeir eiga að heyra, verði komið tafarlaust til allsherjarnefndar. Ekki veitir af að fara að lesa sér til um það því að um stórkostlegar breytingar er að ræða. Ég skora á þingmenn Vinstri grænna, og jafnvel ráðherra Vinstri grænna, að taka ekki þátt í þessari vitleysu sem nú liggur fyrir þinginu. Það er á ábyrgð Vinstri grænna sem lofuðu kjósendum því að þeir mundu ekki taka þátt í því að Ísland gengi inn í Evrópusambandið. Ég skora sérstaklega á ráðherrana að beita sér fyrir því að þessi ólög verði ekki samþykkt.

Hér svelta fjölskyldur sem þurfa að leita sér mataraðstoðar, hér eru heimilin skuldum vafin, hér er mikið atvinnuleysi. Það er þetta, frú forseti, sem hæstv. forsætisráðherra er búin að láta starfsfólk sitt vinna að í allan vetur og allt síðasta ár, að (Forseti hringir.) Evrópuvæða Stjórnarráðið. Ég er yfir mig hneyksluð.