139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

Landsbókasafn -- Háskólabókasafn.

760. mál
[20:03]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Varðandi þjónustu safnsins sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson nefndi verður að sjálfsögðu áfram gert ráð fyrir því að millisafnalán og annað tíðkist milli bókasafna hér á landi og auðvitað hefur hinn sameiginlegi gagnagrunnur Gegnir þjónað þar mjög mikilvægu hlutverki. Ég veit að hann hefur nýst gríðarlega vel um land allt.

Það er rýmkun á gjaldtökuheimildum safnsins. Sú breyting gefur hins vegar ekki tilefni til þess að ætla auknar tekjur. Verið er að styrkja lagalegan grundvöll gjaldheimtunnar sem þótti ekki nægilega skýr í gildandi löggjöf þannig að verið er að skýra heimildir, ekki síst þann hluta sem varðar innheimtu álags- og bótagreiðslna vegna afnota fram yfir skilafrest, slæmrar meðferðar safnmuna og safnmuna sem glatast. Ég tel því að nokkur sátt ætti að vera um það og líklega ætti það að tengjast einstaklingum fremur en þeim söfnum sem eru í samskiptum við safnið.

Að lokum langar mig að nefna gjaldtökuna hjá hvar.is sem mér var tíðrætt um. Það er landsaðgangur að rafrænum gagnasöfnum sem er aðgengilegur öllum notendum á landinu, þ.e. öllum íslenskum netnotendum, og hefur það verið metið sem þjóðhagslega mjög hagkvæmt mál að íslenskir netnotendur hafi aðgang að rafrænum tímaritum, gögnum og fræðigreinum. Ætla mætti að notkunin væri miklu dýrari ef einstakar opinberar stofnanir keyptu t.d. einstakar áskriftir og greinar. Kostnaðinum er skipt niður á ýmsar opinberar stofnanir, bókasöfn, háskóla, heilbrigðisstofnanir, framhaldsskóla og fleiri fyrirtæki og stofnanir sem ekki heyra undir ríkið. Notkun á upplýsingaveitunni er langmest hjá þessum aðilum. Afnotagjöld eru innheimt samkvæmt sérstöku greiðslukerfi sem þróað hefur verið í þeim tilgangi og ekki er gert ráð fyrir því að það fyrirkomulag breytist.