139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

fundarstjórn.

[20:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég geri alvarlegar athugasemdir við hvernig forseti hefur stjórnað hér fundi undir það síðasta. Ég bað um orðið áðan undir liðnum um fundarstjórn forseta þar sem ég ætlaði að gera athugasemdir við að hæstv. forsætisráðherra lokaði ekki umræðum um lagafrumvarpið sem hæstv. ráðherra flutti, sem ég veit ekki betur en sé almenn venja að sé gert þegar ráðherrar hafa flutt mál, og að þeir svari þeim spurningum sem til þeirra er beint. Virðulegur forseti ákvað hins vegar að gefa þeim er hér stendur ekki færi á því og við það geri ég alvarlega athugasemd. Ég tel að forseti hafi ekki farið rétt með vald sitt þegar að því kom.

Ég vil þá, fyrst ég er kominn hingað og sé að hæstv. forsætisráðherra er í salnum, lýsa yfir furðu minni á því að hæstv. forsætisráðherra kom hvorki í fyrra frumvarpinu né í því síðara í ræðustól og lokaði umræðunni með því að fara yfir þær gagnrýnisraddir eða þær raddir sem hælt höfðu málinu með einhverjum hætti, og því að hæstv. ráðherra svaraði ekki yfir höfuð þeim spurningum sem til hennar var beint.