139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

vörumerki.

654. mál
[20:31]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 45/1997, um vörumerki, með síðari breytingum. Frumvarpið felur í megindráttum í sér þrenns konar breytingar á lögum um vörumerki. Í fyrsta lagi má nefna breytingar vegna fyrirhugaðrar aðildar Íslands að Singapúrsamningnum um vörumerkjarétt frá 2006 sem snertir samræmingu á formreglum um vörumerki. Aðrar breytingar eru til samræmis við norræna framkvæmd og reglur um Evrópska efnahagssvæðið, einkum hina svokölluðu umboðsmannaskyldu. Lagðar eru til breytingar til að auka á skýrleika einstakra ákvæða.

Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Félag umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa. Þá var haft samráð við utanríkisráðuneytið um þýðingu að samningnum og við gerð þingsályktunartillögu varðandi heimild til fullgildingar hans. Leggur utanríkisráðherra fram tillögu um fullgildingu Singapúrsamningsins og er samningurinn fylgiskjal með henni.

Alþjóðahugverkastofnunin (WIPO) hefur yfirumsjón með Singapúrsamningnum og um vörumerkjarétt. Hann var undirritaður sem fyrr segir árið 2006 og hefur Ísland undirritað hann. Samningurinn öðlaðist gildi árið 2009. Efni samningsins varðar skilyrði varðandi form og meðhöndlun vörumerkjaumsókna og skráninga. Stefnt er að samræmi í aðildarríkjum samningsins hvað snertir form umsókna um vörumerki og skráningar á þeim. Þær breytingar sem lagt er til að verði gerðar í samræmi við efni samningsins eru m.a. ívilnandi úrræði þegar tímamörk eru ekki virt og möguleiki á hlutun umsókna og skráninga. Í ársbyrjun 2011 höfðu 57 ríki undirritað samninginn og 23 ríki fullgilt hann.

Hvað snertir norræna framkvæmd eru lagðar til tvenns konar breytingar að fyrirmynd dönsku og norsku vörumerkjalaganna. Annars vegar er um að ræða heimild Einkaleyfastofunnar til að fella niður skráningu vörumerkja í ákveðnum tilvikum. Hins vegar er um að ræða breytingu hvað varðar umboðsmannaskyldu. Er það talið stríða gegn reglum Evrópska efnahagssvæðisins og reglum um frjálsa þjónustu milli ríkja þess ef í lögum er kveðið á um skyldu umboðsmanns vörumerkis til búsetu hér á landi. Lýtur breytingin að því að það nægi að umboðsmaður sé búsettur á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. Samskipti umsækjenda og eigenda vörumerkja við Einkaleyfastofuna munu áfram vera á íslensku en í undantekningartilvikum hefur stofan tekið við skjölum á erlendum tungumálum, svo sem framsölum, og er gert ráð fyrir að framkvæmdin verði óbreytt að því leyti.

Í ákvæðum sem auka skýrleika gildandi lagaákvæða má nefna að tekið er fram berum orðum að ákvæði laganna taki ekki einungis til vöru heldur líka til þjónustu. Þá er gjaldtökuheimild gerð ítarlegri og skýrari svo sem venja er með gjaldtökuheimildir í ýmsum öðrum lögum, t.d. lögum um einkaleyfi og lögum um hönnun en þau lög eru á starfssviði Einkaleyfastofu.

Hvað athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins varðar má vekja athygli á nokkrum atriðum:

Í athugasemd við 1. gr. er tekið fram að krafan til sérkennis og aðgreinanleika vörumerkja taki einnig til þjónustu, ekki aðeins vil vöru.

Í athugasemdum við 2. gr. er m.a. fjallað um að sönnunarbyrði um að umsækjandi hafi verið í vondri trú hvíli á þeim sem andmælir skráningu.

Í athugasemdum við 3. gr. greinir frá því að umsækjandi eigi möguleika á að tjá sig um synjun um skráningu umsóknar eða lagfæra umsókn innan tiltekins frests. Jafnframt er þar vikið að því að ákvæði um endurupptöku séu nýmæli er tengist Singapúrsamningnum.

Í athugasemdum við 4. gr. er vikið að andmælum við skráningu vörumerkis innan tiltekins frests frá birtingu skráningar.

Í athugasemdum við 5. gr. er greint frá möguleika á hlutun umsókna og skráninga með tilliti til Singapúrsamningsins.

Þá er í athugasemdum við 6. gr. vikið að þeim nýmælum að Einkaleyfastofan geti samkvæmt frumvarpinu auk dómstóla fellt skráningu úr gildi. Þannig er stuðlað að því að vörumerkjaskráin hafi ekki að geyma fjölda skráðra vörumerkja sem ekki eru í notkun. Er það í samræmi við dönsk og norsk vörumerkjalög.

Í athugasemd við 13. gr. er fjallað um að vörumerkjaskrá skuli ekki aðeins vera aðgengileg almenningi eins og er í gildandi lögum heldur skulu umsóknir og önnur móttekin gögn jafnframt vera aðgengileg almenningi, að undanskildum gögnum er varðar viðskiptaleyndarmál eins og upplýsingar um greiðslu vegna kaupa á vörumerki.

Í kostnaðarmati kemur fram það mat að frumvarpið muni ekki hafa áhrif á kostnað ríkissjóðs verði það lögfest óbreytt.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til viðskiptanefndar.