139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

almannatryggingar o.fl.

763. mál
[21:18]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans. Ég óska einnig, eins og hæstv. ráðherra, Öryrkjabandalagi Íslands til hamingju með 50 ára afmælið. Betra er seint en aldrei, segir gott máltæki. Ég fagna því að þetta frumvarp skuli vera komið fram og þakka hæstv. ráðherra fyrir það.

Ég er í raun bara með eina einfalda spurningu á þessu stigi málsins. Mér sýnist á öllu að frumvarpið sé mjög gott og til þess fallið að bæta hag þeirra sem það viðkemur. Það kann að vera að það komi fram í frumvarpinu en mér hefur þá yfirsést það, ég er að velta fyrir mér því sem stendur í yfirlýsingu þeirri sem minnst var á að á þeim tíma verði fundin viðvarandi lausn á vandanum. Er sú vinna í gangi og hvernig er þá staðan á þeirri vinnu?