139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

kostnaður við kjarasamninga.

[14:03]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er mikið fagnaðarefni að tekist hafi kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði og sérstaklega er ástæða til að undirstrika að þeir fela meðal annars í sér tilraun til þess að hækka lægri launin í kjarasamningunum. Hins vegar er alveg ljóst og hefur komið fram hjá báðum viðsemjendum að til að þetta geti gengið þarf mjög margt annað að ganga upp, sérstaklega þurfum við að sjá miklu kröftugri hagvöxt en spár, sem birtar hafa verið bæði af Seðlabankanum og fleiri aðilum, hafa gert ráð fyrir. Ef það gengur ekki eftir er hættan sú að við munum sjá framan í mjög gamalkunnugt ástand víxlhækkana verðlags og launa þar sem annað eltir hitt. Við vitum að auðvitað þarf að vera innstæða fyrir þeim kostnaðarauka sem atvinnulífið er nú að taka á sig. Við vitum að atvinnulífið er á margan hátt vanbúið og margar atvinnugreinar standa illa um þessar mundir.

Fyrsta spurningin sem vaknar er sú: Hver verða hin raunverulegu verðlagsáhrif af þessum kjarasamningum? Höfum við líka velt því fyrir okkur hvernig einstakar atvinnugreinar eru í stakk búnar til að velta þessum kostnaðarhækkunum af sér með einhverjum hætti eða hagræða til að standast þessar kostnaðarhækkanir? Hættan kann að verða sú að ýmis fyrirtæki sem ekki geta velt þessum kostnaðarauka af sér út í verðlagið neyðist til að segja upp fólki eða horfa fram á gjaldþrot sem líka fylgir þá atvinnuleysi.

Við vitum enn fremur að þessu fylgdi myndarlegur pakki frá hæstv. ríkisstjórn sem mun hafa veruleg áhrif á afkomu ríkissjóðs sem þó er ekki beysinn fyrir. ASÍ talaði um að skera þyrfti niður um 50 milljarða að óbreyttu áður en til þessara aðgerða var gripið í haust. Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra um þessi mál, bæði áhrifin á ríkissjóð, verðlagsáhrifin, og hvernig hæstv. ráðherra sér fyrir sér hagvöxtinn á næstunni til að standa undir þessari útgjaldaaukningu hjá atvinnuvegunum.