139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

kostnaður við kjarasamninga.

[14:05]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda að það var auðvitað geysilega mikilvægt að niðurstaða skyldi nást í kjarasamningunum og ég tel sömuleiðis að útfærsla þeirra sé fagnaðarefni. Þar er farið bil beggja, að bæta sérstaklega kjör tekjulægstu hópanna og stjórnvöld hafa lýst því yfir að sambærilegum eða hliðstæðum kjarabótum verði skilað gegnum almannatryggingakerfið og atvinnuleysisbótakerfið til þeirra hópa sem reiða sig á framfærslu þar.

Ljóst er að kjarasamningarnir sem slíkir og gerð þeirra, gangi þeir yfir vinnumarkaðinn með farsælum hætti í framhaldinu, hafa a.m.k. tvenns konar jákvæð áhrif í efnahagslegu tilliti. Annars vegar það öryggi og sá stöðugleiki sem friður á vinnumarkaði að sjálfsögðu hefur í för með sér og hins vegar það að þeir sem slíkir eru auðvitað örvandi aðgerð. Það má segja að þessir kjarasamningar séu í umtalsverðum mæli félagslegur „stímúlus“ og þeir beina kröftum að þeim hópum samfélagsins og bæta mest kjör þeirra sem minnstan kaupmáttinn hafa fyrir og það hefur tvímælalaust jákvæð efnahagsleg og félagsleg áhrif.

Í öðru lagi er í tengslum við þessa kjarasamninga lögð upp áætlun um fjárfestingar sem miklu skiptir auðvitað að gangi eftir. Þar held ég að horfi vel með fjárfestingar á ákveðnum sviðum eins og í ferðaþjónustu og síðan er spurning hverju verður landað í viðbót af kannski meðalstórum fjárfestingarverkefnum. Þar eru horfur ágætar að fyrir árslok a.m.k. verði tveimur slíkum verkefnum komið í samninga.

Það er að mínu mati misskilningur að staðið hafi til að skera niður um 50 milljarða í viðbót og stóð aldrei til, enda leiðrétti ASÍ þá tölu strax eftir að hún kom fram. Ég svaraði fyrir hana hér í ræðustóli og sagði að þetta gæti ekki verið því að það þarf ekki að skera niður 50 milljarða vegna halla sem kominn er niður í 37. Hins vegar er ljóst og það skal ekki dregin á það dulur (Forseti hringir.) að þetta mun gera glímuna við aðlögun að ríkisfjármálunum erfiða og sérstaklega verður auðvitað erfitt að ná miklum árangri í að taka niður hallann á næsta ári.