139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

kostnaður við kjarasamninga.

[14:09]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það fyrsta sem verður gert er að fá nýtt mat á þjóðhagshorfunum sem tekur mið af kjarasamningunum og þeim efnahagslegu áhrifum sem þeir hafa. Þegar er hafin vinna við slíkt mat samkvæmt beiðni frá fjármálaráðuneytinu til Hagstofunnar og þá kemur af því kortlagning hvaða áhrif þetta hefur, m.a. á hagvaxtarhorfur því að þær eru einhverjar og væntanlega t.d. hefur jákvæð áhrif á spár um einkaneyslu fram í tímann.

Varðandi verðlagsþróunina er það auðvitað mjög háð því hvernig gengið þróast, eins og hv. fyrirspyrjandi réttilega nefndi. Það sem væri langvænlegast og mundi hjálpa okkur mest væri ef gengið styrktist samhliða því að verðlagsáhrif vegna kjarasamninganna, að því marki sem þau eru til staðar, koma fram. Það sem hefur verið að hrekkja okkur að undanförnu eru hækkanir á olíuvörum og fleiri hrávörum í innflutningi til landsins og hefur haft neikvæð verðlagsáhrif en vonandi getur það snúist við.

Það er mikil fjárfesting í samningunum (Forseti hringir.) sjálfum og ég á ekki í neinum vandræðum með að réttlæta það að ríkið og hið opinbera, ríki og sveitarfélög, líti á það upp að vissu marki sem fjárfestingu í framtíðinni að takast á við byrðarnar af þessum samningum því að þeir hafa mjög jákvætt gildi í sjálfu sér (Forseti hringir.) og það er ekki verri fjárfesting í stöðugleika og friði á vinnumarkaði og traustum horfum næstu þrjú árin en í hverju öðru.