139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

NATO og flóttamenn frá Afríku.

[14:20]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég veit ekki meira um málið en það sem ég hef sjálfur lesið í sama dagblaði og hv. þingmaður vísaði til, The Guardian. Hv. þingmaður sagði: Ef satt væri, og tók fram að það væri óstaðfest og á þessari stund í reynd hafna ég að trúa því að þetta hafi gerst. Ég tel nefnilega að ekki sé bara ósiðlegt heldur fullkomlega óverjandi af hverjum sem er en þó sérstaklega af Atlantshafsbandalaginu sem er stofnað til að vernda öryggi og hefur í vaxandi mæli tekið að sér að vernda öryggi borgara.

Í þessu tilviki er um að ræða frönsk skip sem, eins og hv. þingmaður benti á, eru ekki undir beinni samræmingarstjórn Atlantshafsbandalagsins að því er varðar aðgerðir sem beinast gegn stjórn Gaddafís í Líbíu. En undir hvaða kringumstæðum sem er er fullkomlega óverjandi að skip sem Ísland eða eitthvert aðildarríki Atlantshafsbandalagsins tengist með einhverju móti, komi svona fram. Þetta er svo gjörsamlega gegn þeim anda sem bandalagið á að vinna eftir að ég leyfi mér á þessari stundu að undirstrika þau orð í máli hv. þingmanns að þetta er óstaðfest og ég vil að minnsta kosti leyfa mér að leggja höndina í sárið eins og Tómas forðum áður en ég trúi.