139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

endurútreikningur gengistryggðra lána.

[14:24]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég vil ræða endurútreikninga gengistryggðra lána. Þrátt fyrir heilt bankahrun virðist ráðherra bankamála bera mikið traust til bankanna og treysta þeim bara alveg sjálfum til að endurútreikna lán heimilanna. Það finnst mér allt saman mjög dularfullt.

Umboðsmaður skuldara er reyndar sammála mér um þetta og er að láta skoða reikniaðferðir bankanna en tjáir sig ekki um málið í bili. Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður hefur sett upp reiknivél á heimasíðu sinni þar sem fólk getur slegið inn lán sín með tveimur ólíkum forsendum sem báðar byggja þó á afturvirkni laganna. Niðurstöður þar eru öðruvísi en fólk fær frá bönkunum. Annars vegar er það afturvirkni að lántökudegi og hins vegar afturvirkni að þeim degi sem lánin eru dæmd ólögmæt og getur munað margföldum árslaunum lánþega.

Í frétt í Morgunblaðinu í dag á bls. 14 er haft eftir viðskiptaráðherra, og mig langar, með leyfi forseta, að lesa það upp:

„Árni Páll Árnason viðskiptaráðherra sagði við Morgunblaðið í gær að lögin um endurreikning lána hefðu verið sett til þess að flýta fyrir endurreikningi tugþúsunda lána til heimila. Lögin hefðu endurspeglað að fullu þá leiðsögn sem finna mætti í dómum Hæstaréttar. „Allar útreikningsreglur voru útfærðar á þann veg sem talið var henta skuldurum best, að áliti bestu sérfræðinga, en Hæstiréttur réði auðvitað grunnforsendunum.““

Þetta er bara ekki rétt. Enginn dómur hefur fallið í Hæstarétti um afturvirknina og hvort hún sé lögmæt og um vaxtaútreikningana á gengistryggðu lánunum hefur Hæstiréttur reyndar ítrekað vikið sér fimlega undan því að svara þeirri spurningu. Því spyr ég: Af hverju í ósköpunum heldur ráðherra þessu fram? Telur ráðherra ekki að Alþingi Íslendinga, og þar með hann sjálfur sem þingmaður og ráðherra sem lagði einmitt fram frumvarpið sem lögin byggja á, (Forseti hringir.) fari með löggjafarvaldið í landinu?