139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

málefni lífeyrissjóða.

[14:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það gleður mig að álmurinn í garði fjármálaráðherra blómstri þrátt fyrir ríkisstjórnina, henni tekst ekki að drepa hann, og vorið kemur þar líka.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um lífeyrissjóðina og þá í fyrsta lagi um opinberu lífeyrissjóðina, A-deildina sem er með 12% halla og má á þessu ári ekki fara yfir 10% halla, hvað verði gert, hve mikið þurfi að hækka iðgjaldið til sjóðsins því að réttindin eru föst sem kunnugt er.

Ég vil líka spyrja um B-deildina. Í henni eru ógreiddir um 350–400 milljarðar, það er ógjaldfært og hvergi nokkurs staðar getið um það í fjárlögum, sem er miklu hærri upphæð en upphaflegi samningurinn um Icesave hljóðaði upp á. Ég spyr ráðherra: Hyggst hann greiða þetta einhvern tíma?

Svo eru það lífeyrissjóðirnir almennt. Þeir munu þurfa um 100–130 milljarða fóður á hverju ári, arðbæra fjárfestingu sem skilar þeim 3,5% vaxtaviðmiðum. Nú er það þannig að sjóðirnir fóru illa út úr því þegar þeir töpuðu á fyrirtækjum sem höfðu verið holuð að innan. Engu hefur verið breytt í því efni þannig að enn er hætta á því að fyrirtæki verði holuð að innan og ég spyr ráðherra hvernig hann ætli að bregðast við, hvernig hann ætli að skapa lífeyrissjóðunum fjárfestingartækifæri upp á 110–130 milljarða með þessum vöxtum þar sem þeir geta ekki farið til útlanda.

Ef ekki verður um að ræða vaxtahækkun á markaði, ef við erum að stefna í langtímavaxtalækkun hér á landi sem erlendis, þá er það spurning til ráðherra hvort það hafi verið rætt í ríkisstjórninni eða í hans ráðuneyti hvernig hann ætli að bregðast við, ef þessi vaxtaviðmið, 3,5%, lækka? Hvernig ætlar hann að bregðast við ef það þarf að fara að hækka iðgjaldið eða lækka lífeyri?