139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

málefni lífeyrissjóða.

[14:36]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég geri mér góðar vonir um að staða lífeyriskerfisins muni styrkjast á komandi missirum með batnandi gengi í hagkerfinu. Þess má vænta að fleiri fyrirtæki verð skráð í Kauphöll á næstu mánuðum og missirum, meðal annars fyrirtæki sem eru að koma frá bönkunum og þá rýmkast um fjárfestingarmöguleika lífeyrissjóða eins og annarra í skráðum fyrirtækjum.

Það er alveg rétt að við þurfum að muna eftir B-deildinni og það hefðum við betur gert á veltiárunum. Hvernig væri það ef við hefðum greitt eins og 100 milljarða í viðbót inn á skuldbindingarnar (PHB: Tilheyrir fortíðinni?) — ja, það má ekki nefna þetta. En veruleikinn er sá að menn lögðu sæmilega af stað um aldamótin og hófu eingreiðslur inn á framtíðarskuldbindingarnar en svo drógu þeir úr þeim og nánast hættu þeim á mestu uppgangsárunum, meintum, í efnahagslífinu þegar átt hefði að reka ríkissjóð með mun meiri afgangi til að vinna gegn ofþenslu. Það hefði verið alveg upplagt að ráðstafa drjúgum hluta (Gripið fram í.) þess afgangs inn á lífeyrisskuldbindingarnar. Það er eins og venjulega þegar þessir hlutir eru ræddir við hv. þingmann ef það kemur einhvers staðar nálægt fortíðinni og Sjálfstæðisflokknum þá fer hv. þingmaður upp úr skónum hér úti í salnum.