139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

741. mál
[15:46]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 1272, sem er 745. mál þingsins. Um er að ræða frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

Frumvarp þetta er samið í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu í samráði við hagsmunaaðila í sjávarútvegi, lífeyrissjóði og tryggingafélög. Með frumvarpinu er lagt til að veigamiklar breytingar verði gerðar á lögum nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Lagt er til að greiðslumiðlun vegna lífeyrisgreiðslna og trygginga verði aflögð í núverandi mynd en mælt verði fyrir um tiltekið hagræði við innheimtu félagsgjalda til hagsmunasamtaka smábátaeigenda, þ.e. eigenda opinna báta, þilfarsbáta undir 10 lestum og krókaaflamarksbáta. Með frumvarpinu er lagt til að allur II. kafli laga nr. 24/1986 falli brott en þar er fjallað um greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

Ég tel rétt vegna samhengis að gera í fáum orðum grein fyrir þeim ákvæðum. Um er að ræða ákvæði um greiðslumiðlun sem greina má í tvær deildir. Annars vegar er greiðslumiðlun fjár sem nemur 8% af öllu hráefnisverði sjávarafurða stærri báta, skv. 1. mgr. 5. gr. laganna, og hins vegar greiðslumiðlun fjár sem nemur 8,4% af hráefnisverði sjávarafla smábáta, skv. 6. gr. laganna. Líkar reglur gilda um innheimtu greiðslumiðlunarfjár í báðum deildum en það skal inna af hendi innan 14 daga frá því að fiskur er afhentur. Sérreglur eru um umboðssölu sjávarafla, sölu á ísfiski í erlendri höfn og skip sem vinna og frysta afla um borð. Við veðsetningu framleiðslunnar til töku afurðaláns hjá viðskiptabanka ber að tryggja rétt skil á greiðslumiðlunarfé samkvæmt nánari reglum. Réttur til lögtaks eða fjárnáms, án undangengins dóms eða sáttar, fylgir kröfu um greiðslu fjárins.

Greiðslumiðlunarfé stærri báta samkvæmt lögunum kemur á tvo staði. Af því er 80% ráðstafað inn á vátryggingarreikning, sem svo er kallaður, hvers skips hjá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og fer um nánari ráðstöfun þess samkvæmt lögum nr. 17/1976, um greiðslu vátryggingargjalda fiskiskipa. Lögin mæla fyrir um skyldu Landssambands íslenskra útvegsmanna til að skila andvirðinu, mánaðarlega, til viðkomandi tryggingafélags enda liggi fyrir samkomulag um vátryggingar fiskiskipa og skal endurgreiða skipseiganda eigi síðar við árslok þá greiðslu umfram vátryggingargjald. Þeim 20% sem eftir standa af greiðslumiðlunarfé stærri báta er ráðstafað inn á sérstakan greiðslumiðlunarreikning fiskiskipa, sem svo er kallaður, hjá Lífeyrissjóði sjómanna. Lífeyrissjóðurinn skal skipta þessu fé mánaðarlega í tilteknum hlutföllum milli lífeyrissjóða sjómanna og hagsmunafélaga og útvegsmanna.

Greiðslumiðlunarfé smábáta, þ.e. opinna báta, þilfarsbáta undir 10 lestum og krókaaflamarksbáta, skal samkvæmt lögunum ráðstafað inn á sérstakan greiðslumiðlunarreikning smábáta, sem svo er kallaður, hjá Lífeyrissjóði sjómanna. Lífeyrissjóðurinn skal skipta fénu mánaðarlega í tilteknum hlutföllum til lífeyrissjóða sjómanna, greiðslu iðgjalda af slysa- og örorkutryggingu skipverja og Landssambands smábátaeigenda. Landssamband smábátaeigenda hefur með höndum umsjón með ráðstöfun tryggingarfjárins með líkum hætti og áður var getið varðandi Landssamband íslenskra útvegsmanna.

Verði frumvarp þetta að lögum verður framangreind greiðslumiðlun í sjávarútvegi vegna lífeyrisgreiðslna og trygginga hins vegar aflögð og Landssamband íslenskra útvegsmanna og Landssamband smábátaeigenda munu ekki njóta sjálfkrafa lögákveðins framlags samkvæmt lögunum. Enn verði þó gert ráð fyrir tiltekinni valkvæðri greiðsluskyldu til Landssambands smábátaeigenda í formi félagsgjalda. Samkvæmt frumvarpinu er því gert ráð fyrir að nýr kafli bætist við ákvæði laganna sem ber heitið Framlag til hagsmunasamtaka útgerðarmanna með einni nýrri grein sem verði 12. gr. A. Þar kemur fram að framleiðendur sjávarafurða og aðrir fiskkaupendur, svo og þeir sem taka sjávarafurðir í umboðssölu, skulu greiða tiltekið hlutfall, allt að 0,5% af samanlögðu verðmæti þess afla sem þeir taka við af opnum bátum, þilfarsbátum undir 10 lestum og krókaaflamarksbátum, inn á reikning hagsmunasamtaka útvegsmanna, t.d. Landssambands smábátaeigenda eða annars sambærilegs félags, enda hafi útvegsmaður eða hagsmunasamtök útgerðarmanna fyrir hans hönd óskað eftir því að svo verði gert.

Einnig er þar gert ráð fyrir að hagsmunasamtök útgerðarmanna skuli láta framleiðendum sjávarafurða og öðrum fiskkaupendum í té skrá yfir þá útgerðarmenn sem hafa óskað þess að greiða gjald samkvæmt greininni inn á reikning þeirra. Enn fremur er í frumvarpinu ákvæði um gerð skrárinnar, heimild til að birta hana á netinu, heimildir útgerðarmanna til að segja sig frá skránni, ráðstafanir sem skal gera við veðsetningu afla o.fl. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að sambærileg skylda hvíli á þeim sem taka fisk í umboðssölu. Með framangreindu er stefnt að því að innheimta gjaldsins verði skilvirk og einföld í framkvæmd en áréttað skal að þeir útgerðarmenn sem svo kjósa eru ekki skyldir til að greiða framlagið.

Að lokum er gert ráð fyrir því samkvæmt frumvarpinu að heiti laga nr. 24/1986 verði breytt á þann veg að það verði framvegis Lög um skiptaverðmæti, enda er eins og áður segir gert ráð fyrir að ákvæði þeirra um greiðslumiðlun falli niður.

Frú forseti. Eins og gerð hefur verið grein fyrir að framan felst í frumvarpinu að lagt er til að greiðslumiðlun í sjávarútvegi vegna lífeyrisgreiðslna og trygginga verði aflögð. Með frumvarpinu er þó einnig lagt til að í stað beinnar greiðsluskyldu til Landssambands smábátaeigenda komi ákvæði sem skyldi fiskkaupendur til að greiða hluta af aflaverðmæti til hagsmunafélaga smábátaeigenda sem eiginlegt félagsgjald en sama gildir um þá sem taka fisk í umboðssölu. Um er að ræða valkvæða greiðsluskyldu í báðum tilvikum.

Megintilgangur þessa frumvarps er að tryggja að lög nr. 24/1986 samþýðist réttarvernd 74. gr. stjórnarskrárinnar um félagafrelsi og rétt til að standa utan félaga. Breytingar á lögunum í þessu tilliti hafa verið til umræðu síðan umboðsmaður Alþingis lét í té álit frá 12. apríl 2002 í máli nr. 3204/2001. Þá má geta þess að Landssamband íslenskra útvegsmanna lagði fyrst til árið 2005 að greiðslumiðlun samkvæmt lögum nr. 24/1986 yrði afnumin. Enn má geta þess að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið átti aðild að starfshópi forsætisráðherra um gjaldtöku í þágu félagasamtaka sem skilaði ítarlegri skýrslu í árslok 2006. Með dómi Hæstaréttar frá 18. október 2010 í máli nr. 504/2008 varð enn ljósara en áður að þörf er breytinga á fyrirkomulagi greiðslumiðlunar. Í IV. kafla athugasemda við frumvarpið er nánari grein gerð fyrir tildrögum frumvarpsins með hliðsjón af réttarvernd 74. gr. stjórnarskrárinnar.

Verði frumvarpið að lögum munu ákvæði laga nr. 24/1986 samþýðast réttarvernd 74. gr. stjórnarskrárinnar, samanber 72. gr. stjórnarskrárinnar, enda felst í frumvarpinu að greiðsluskylda sem þar er gert ráð fyrir vegna hagsmunafélags smábátaeigenda verði valkvæð. Ekki er með frumvarpinu mælt fyrir um hagræði við öflun félagsgjalda til Landssambands smábátaeigenda enda þykja ekki standa sömu rök til að tryggja því félagi greiðsluhagræði og í tilviki hagsmunafélags smábátaeigenda. Ástæður þess eru þær er að gjaldendur eru mun færri og félagið hefur allt frá árinu 2005 mælst til þess að greiðslumiðlun verði afnumin að öllu leyti.

Ómögulegt er að leggja mat á áhrif þessara breytinga á starfsemi félaganna enda ekki fyrirséð hvort félögum í þeim muni fækka af þessum ástæðum. Þá er ljóst að mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan lög nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, öðluðust gildi í maí 1986. Almenn ákvæði laga á sviði vinnuréttar og tryggingaverndar verða talin geta leyst af hólmi þær sérreglur sem lagt er til að falli brott með frumvarpi þessu.

Í athugasemdum við frumvarpið er m.a. gerð grein fyrir ákvæðum laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, en þar er kveðið á um að öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi sé rétt og skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði frá og með 16 ára til 70 ára aldurs. Einnig er í athugasemdunum gerð grein fyrir ákvæðum laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, þar sem fram kemur að öllum atvinnurekendum sé skylt að greiða í fræðslusjóði atvinnulífsins, sem og sjúkrasjóði og orlofssjóði viðkomandi stéttarfélaga iðgjöld þau, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um hverju sinni. Enn fremur kemur þar fram að atvinnurekanda sé skylt að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags samkvæmt þeim reglum er kjarasamningar greina. Atvinnurekendur í sjávarútvegi falla að sjálfsögðu undir þessi ákvæði.

Þá er í athugasemdunum fjallað um lög nr. 35/2010, um lögskráningu sjómanna, þar sem fram kemur sú meginregla að óheimilt er að leggja skipi úr höfn nema allir skipverjar hafi verið lögskráðir í skiprúm en skilyrði slíkrar skráningar eru m.a. að fyrir liggi yfirlýsing frá viðkomandi tryggingafélagi um fullnægjandi líf- og slysatryggingu skipverja. Samkvæmt þessu eru ætíð fyrir hendi tryggingar við slys á fiskiskipum og fiskibátum. Ekki eru því nú sömu ástæður og áður fyrir greiðslumiðlun í sjávarútvegi.

Með frumvarpi þessu er hins vegar lagt til að sett verði ákvæði í lögin sem geti ýtt undir tryggari heimtur á framlagi til Landssambands smábátaeigenda. Réttlæting þess er það mikilsverða starf sem Landssamband smábátaeigenda hefur unnið á síðustu árum. Jafnframt er gert ráð fyrir að ákvæði þessi gildi um önnur sambærileg félög útvegsmanna.

Rétt þykir að mæla fyrir um að lögin öðlist gildi 1. janúar 2012. Með því er gefinn hagkvæmur aðlögunarfrestur vegna þeirra umfangsmiklu breytinga sem felast í lögunum. Til þess að framkvæma þau þarf aðkomu atvinnugreinarinnar, tryggingafélaga, lífeyrissjóða, viðskiptabanka, fisksala og stjórnvalda.

Á fylgiskjali með frumvarpinu er að finna kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið og vísa ég til hennar. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirrar sem fylgir frumvarpinu en þar er ítarlegar fjallað um einstaka efnisþætti þess og gerð grein fyrir þeim.

Frú forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis.