139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

741. mál
[16:31]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra klappar nú bara gamla steininn um að við eigum almennt að vera frekar íhaldssöm og ég vil árétta að ég er honum sammála um það. En eins og ég man þetta er málið þannig vaxið að þegar iðnaðarmálagjaldið var kært á sínum tíma var Hæstiréttur þeirrar skoðunar að það gjald stæðist, meðal annars vegna þess að kveðið væri á um að því væri ætlað að standa undir tilteknu, skilgreindu verkefni sem ég held að hafi falið í sér að gæta hagsmuna iðnaðarins. Nú gerðist það hins vegar að mannréttindadómstóll Evrópu, ef ég man rétt, taldi að þetta væri ekki nægilega skýrt og er með öðrum orðum farinn að gera meiri kröfur. Ég var því að velta því fyrir mér í ræðu minni áðan hvort þessi mál hefðu verið skoðuð sérstaklega í því ljósi. Ég geri mér grein fyrir því að hæstv. ráðherra getur ekki komið hingað upp aftur í andsvar, hefur kannski möguleika á að kveða sér hljóðs ef hann svo kýs á eftir, en engu að síður þurfum við að skoða þetta, meðal annars í ljósi þeirrar niðurstöðu sem fengist hefur með iðnaðarmálagjaldið þar sem mér sýnist forkröfurnar vera meiri en áður.

Ég er sammála því að þetta er svolítið vandasöm ferð. Við viljum í fyrsta lagi ekki granda hagsmunasamtökunum. Við viljum að þau séu til staðar til að vinna ákveðin verk sem eru mjög mikilvæg. Um leið viljum við fara sem ítarlegast eftir ákvæðum stjórnarskrárinnar, það verður þá verkefni okkar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að reyna að feta þá slóð.