139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

741. mál
[16:50]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Upphafsorðum hv. þm. Péturs H. Blöndals er ég sammála. Nauðsynlegt er að halda verkalýðshreyfingunni og öllum félagasamtökum við efnið þannig að þau minnist þess í öllu starfi sínu hvert ætlunarverk þeirra er, hver baráttumarkmiðin eru og til hvers þau eru til, hvers vegna þau starfa. Undir það tek ég.

Ég tek líka undir gagnrýni hv. þingmanns á að Samtök atvinnurekenda og einnig stéttarfélög launafólks hafa stundum farið yfir þau landamerki sem ég tel vera eðlileg. Hann vísaði til Evrópusambandsins og Icesave-deilunnar og ég er sammála honum um það, þarna finnst mér að menn eigi að fara varlega.

En hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur í tímans rás gengið miklu lengra en þetta. Hann gagnrýndi verkalýðsfélögin á sínum tíma og sérstaklega BSRB þegar barist var fyrir því að rétturinn til vatns yrði virtur sem mannréttindi og almannaeign á vatni tryggð. Hann gagnrýndi líka harkalega þegar verkalýðshreyfingin — og þar fór BSRB fremst í flokki — vildi standa vörð um velferðarkerfið og andmælti einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar. Þar fannst hv. þingmanni líka of langt gengið.

Við höfum mismunandi skoðanir á þessu og færum einfaldlega rök fyrir máli okkar eftir atvikum en auðvitað á lýðræðisleg samkoma og félagasamtök að taka lýðræðislega ákvörðun um hvar þau beita sér. Ef það er gert er fólki í sjálfsvald sett í þágu hvaða málefna það beitir sér. Ef svo er ekki (Forseti hringir.) og einhver fámenn klíka talar máli fjöldans án lýðræðislegs umboðs gildir annað.