139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

741. mál
[16:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta síðasta, lýðræðislegt umboð, er einmitt það sem menn sem tala við mig varðandi afstöðu til stéttarfélaga kvarta hvað mest undan. Stéttarfélagsgjöldin hafa nefnilega, sérstaklega eftir að skyldugreiðslu í BSRB var komið á og hjá fjöldamörgum stéttarfélögum opinberra starfsmanna, breyst í skatt. Þá er þetta ekki lengur lýðræði, menn skulu bara greiða og ekkert múður. Það er margt, margt miklu verra við það sem ég ætla ekki að koma inn á.

Það getur vel verið að hæstv. ráðherra telji að allir menn eigi rétt til að drekka ómengað vatn, að það hafi eitthvað með stéttabaráttu launafólks á Íslandi að gera. Ég tel svo ekki vera. Þetta er eitthvað allt annað sem menn eru að berjast fyrir. Það geta verið mannréttindasamtök sem gera þetta en ekki stéttarfélög sem berjast fyrir því að fólk fái laun um næstu mánaðamót, meiri pening í launaumslagið svo það geti borgað leiguna og slíkt.

Ég hef aldrei nokkurn tíma sagt að ég vilji ekki hafa gott velferðarkerfi, aldrei. Ég legg mikla áherslu á að Íslendingar hafi gott og skilvirkt velferðarkerfi. Því miður er núverandi velferðarkerfi ekki skilvirkt. Það er allt of margbrotið, of flókið og óskiljanlegt, í því eru bæði oftryggingar og vantryggingar, sérstaklega vantryggingar og þær eru sárar þegar maður horfir upp á að við erum með mjög dýrt velferðarkerfi og sumt fólk er skelfilega illa tryggt í því. Ég vil breyta velferðarkerfinu, ég lít svo á að það hafi mjög mikið hlutverk. En að skylda menn til að borga í stéttarfélag, það er bara stofnanagerving á því fyrirbæri.