139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

741. mál
[16:55]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta voru athyglisverð orðaskipti sem áttu sér stað milli hæstv. innanríkisráðherra og hv. þm. Péturs H. Blöndals.

Mig langar að vekja athygli hæstv. innanríkisráðherra á því að í athugasemdum með frumvarpinu um tilefni og nauðsyn lagasetningar eins og það er kallað, kemur fram ábending frá þremur stéttarfélögum sem eru Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Félag vélstjóra og tæknimanna og Sjómannasamband Íslands. Allt eru þetta mikil og góð og merkileg samtök sem hafa unnið marga sigra í gegnum tíðina. Þau gera athugasemdir við að þau muni ekki sitja við sama borð og þeir aðilar sem hér er fjallað um, þ.e. útgerðarmenn á smærri bátum.

Ég vil líka vekja athygli hæstv. innanríkisráðherra á því að í textanum kemur fram að orðrétt segir í lögunum, sem koma frá ráðuneytinu:

„Þá þykir ekki rétt að mæla fyrir um greiðslumiðlun í þágu launþega […].“

Þetta eru staðreyndirnar sem blasa við. Ég verð að hvetja hæstv. innanríkisráðherra til að fara betur yfir þetta. Mér þykir í raun og veru dálítið sérkennilegur textinn sem hér er skrifaður inn, eftir ábendingar frá þremur stéttarfélögum, að ekki skuli vera talin ástæða til að gera neitt í þágu launþega. Eins og búið er að fara yfir í fyrri ræðum er gefin sérstök heimild, valkvæð, til einungis eins aðila af þeim sem hafa notið þess hvernig greiðslumiðlunin hefur verið framkvæmd, um að honum standi til boða að fá áfram greitt þannig. Um það fjalla lögin í sjálfu sér. Öðrum stendur þetta ekki til boða. Ég teldi skynsamlegra og eðlilegra, fyrst menn fara í þessa vegferð og fella ekki niður greiðslumiðlunina í heild sinni til að uppfylla þau ákvæði stjórnarskrárinnar sem dómar hafa fallið um, að hið sama hefði gilt um alla.

Ég vil hins vegar taka undir það sem hefur komið fram og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra nefndi áðan, það er afskaplega mikilvægt að hafa sterk alvöruhagsmunasamtök í sjávarútvegi eins og alls staðar annars staðar. En við verðum líka að átta okkur á því að máli skiptir að aðilar í samtökunum vilji vera þar af fúsum og frjálsum vilja. Ef menn eru með sterk samtök, hvort sem er í þessari grein eða annarri, á aðilum þar innan borðs að líða vel og þar á að vera unnið í þeirra þágu. Hér er alveg skýrt að þetta er valkvætt, menn geta farið út úr samtökunum eða ákveðið að greiða árgjald sjálfir og það hefur mér alltaf fundist vera eðlilegast, að menn greiði gjaldið sjálfir ef þeir eru í einhverjum hagsmunasamtökum. Fyrst menn fara þá leið að taka 0,5% sem greidd eru milliliðalaust til samtakanna sem hér eru talin upp er í raun og veru engin ástæða til annars en að gera slíkt hið sama við hin samtökin, greitt yrði bara til aðildarfélaganna sem launþegarnir tilheyra og samtökin myndu síðan greiða til þeirra til að tryggja mikilvægan rekstur þeirra. Þannig verður það að vera.

Mikilvægt er líka að fram komi í umræðunni að margir hafa á undanförnum árum, eða að minnsta kosti einhverjir, gert athugasemdir við hvernig þetta hefur verið framkvæmt. Þá hefur mönnum verið bent á það að þeir geti sagt sig úr samtökunum en þeir verði samt áfram að borga gjaldið. Þó að þeir séu ekki aðilar að samtökunum verði þeir samt að borga gjaldið. Þetta er náttúrlega algjörlega galið og líka upphæðirnar sem fara í þetta. Hér er reyndar bara talað um 0,5% sem er hluti af þessu greiðslumiðlunarkerfi sem hefur farið til hagsmunasamtakanna en ekki 8,4% af brúttóaflaverðmæti eins og var. Það er náttúrlega fáránlegt, að taka svo mikið af brúttóaflaverðmæti og síðan eru peningarnir í umferð í kerfinu í margar vikur og marga mánuði. Svo réttlæta þeir þetta hver fyrir öðrum þegar þeir gefa skýringar á þessu kerfi og reyna að verja það, að í raun veru sé viðkomandi aðili að ávaxta það, hugsanlega í styttri tíma en einhver annar; fyrst fer það frá fiskkaupanda eða þeim sem miðla fisknum, svo til Sparisjóðs vélstjóra og þaðan í þrjár áttir og svo eru menn alltaf að „víla og díla“ með þetta. Til dæmis þegar menn voru að borga tryggingarnar þá söfnuðu menn peningunum upp áður en þeir endurgreiddu útgerðunum, söfnuðu árgjaldinu allt heila árið. Það var kannski komið snemma árs og menn héldu fénu bara á vöxtum á bókum hjá aðildarsamtökunum og greiddu svo mánaðarlega tryggingar fyrir viðkomandi útgerðir.

Það er líka mjög sérkennilegt að menn segi að þetta séu tryggingar og lífeyrissjóðir. Af hverju ekki alveg eins skattar eða virðisaukaskattur? Auðvitað á hver rekstraraðili að bera ábyrgð á því að greiða sín gjöld. Það er mikilvægt að þessu sé breytt og er mikið fagnaðarefni. Ég geri hins vegar athugasemdir við þennan valkvæða möguleika, mér hefði fundist eðlilegra að hann stæði öllum til boða en ekki einum aðila. Ég hefði talið að jafnræðissjónarmið ættu að gilda. Það er miður að ekki sé hægt að mæla með því að greiðslumiðlun, sem hér er lagt til að eigi við suma, sé í þágu launþega. Þannig ætti það að vera að mínu mati.

Ég vil þó segja að mér finnst þetta klárlega vera skref í rétta átt og fagna því og sérstaklega því, eins og ég sagði í andsvari við hæstv. ráðherra, að alveg er skýrt að menn geta valið hvort sá sem þeir kaupa fiskinn af eða selja hann, eins og fiskmarkaðirnir, borgi beint til aðildarfélagsins sem viðkomandi útgerð er í eða fá bara senda innheimtuseðla og greiða þá sjálfir.

Hæstv. ráðherra nefndi að lögin eigi að taka gildi 1. janúar 2010. Ég vonast til að menn hafi góðan tíma til að vinna þetta áfram og vænti þess að menn fari vel yfir hvort þetta sé nægilegt skref sem þarf að stíga til að bregðast við dómum Mannréttindadómstólsins um félagafrelsið þannig að það sé alveg á kláru. Ég efast að sjálfsögðu ekki um að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd muni gera það.