139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

barnalög.

778. mál
[17:27]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með þetta frumvarp því að það er búið að bíða mjög lengi eftir því. Mér finnst eins og tennurnar úr tillögum nefndarinnar hafi verið dregnar út sem þó gengu kannski ekki nógu langt. Mér finnst frumvarpið að mörgu leyti, og þá kannski einkum 13. gr. sem fjallar um dóm um forsjá barns, einskorðast af einstefnujafnrétti sem kemur óorði á jafnréttisbaráttuna.

Ef grunur leikur á ofbeldi verður að rannsaka það. En mæður beita líka ofbeldi, svo á það sé bent, og það er ekki hægt að setja alla feður undir sama hatt þótt tölfræðin sé þeim í óhag. Ef annað foreldrið beitir ofbeldi og það liggur ekki fyrir hvort ofbeldi hefur verið beitt og þá hvort foreldrið hefur gert það, hvað tryggir þá að dómari dæmi réttu foreldri barnið?