139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

barnalög.

778. mál
[17:28]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmanni þykir frumvarpið valda vonbrigðum en svo tel ég ekki vera. Í því eru fólgnar miklar réttarbætur fyrir börn og bryddað er upp á því nýmæli eða öllu heldur er styrkt sú leið sem verið hefur að þróast á undanförnum árum, að leita sátta í deilumálum, í fjölskyldudeilum sem lúta að umgengni og forræði barna. Þegar talað er um einstefnujafnrétti vil ég tala um einstefnuréttlæti. Það má til sanns vegar færa að hér sé einstefnuréttlæti ef horft er á hagsmuni barnsins. Við smíði þessa frumvarps er gengið út frá hagsmunum barnsins í einu og öllu. Síðan getur okkur greint á um hvort við náum því marki en það er sú einstefna sem við tökum, að hugsa málin einvörðungu út frá hagsmunum barnsins.