139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

barnalög.

778. mál
[17:31]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ræðum breytingu á barnalögum og að sjálfsögðu er í barnalögum tryggt að hagsmunir barns séu ávallt í fyrirrúmi, um það er enginn vafi. Sáttatónninn í þessu nýja frumvarpi finnst mér mjög góður en því miður er hann ekki alltaf raunhæfur.

Það er einn hópur foreldra sem mig langar til að ræða sérstaklega og fá viðbrögð hæstv. innanríkisráðherra. Ef karlmaður á Íslandi telur líkur á að hann sé faðir barns en barnið hefur þegar verið feðrað á sá karlmaður engan rétt á því að fara í faðernismál eða eiga aðild að faðernismáli. Þar sem það er ákveðinn réttur barns og hagsmunir barns að þekkja til beggja foreldra sinna langar mig að fá viðbrögð hæstv. ráðherra við þessu: Finnst honum eðlilegt að sá hópur karlmanna sem telja sig geta verið feður barna hafi engan rétt til að sækja mál sitt? (Forseti hringir.) Það stríðir gegn mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrá.