139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

barnalög.

778. mál
[17:34]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka vel í málið og að það verði skoðað. Ég tel að við verðum að horfast í augu við að allir íbúar jarðar, allir íbúar Íslands eiga rétt á því að hafa aðgengi að dómstól og bera fram mál sitt fyrir dómi. Annað er beinlínis brot á stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Ég tel að við verðum að taka þessa umræðu í tengslum við þetta mál.

Réttarstaða feðra hefur verið bætt með því að nú geta menn orðið aðilar að faðernismáli ef barnið hefur ekki verið feðrað en ef barn hefur verið feðrað þá geta karlmenn, sem vilja gjarnan fá fullvissu um það hvort þeir séu feður barns og vilja gjarnan koma að málum barna sinna, það ekki. Við verðum að skoða réttarstöðu þeirra og leiðrétta þetta mál. Við viljum ekki vera fólk sem brjótum mannréttindasáttmála Evrópu.