139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

barnalög.

778. mál
[17:36]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð eins og sumir þingmenn sem hér hafa talað að lýsa yfir miklum vonbrigðum með þetta frumvarp. Það er sagt byggja á vinnu nefndar sem skilaði áliti til innanríkisráðuneytisins fyrir nokkru síðan. Það álit var mun framsæknara að mínu mati en gekk þó ekki nógu langt. Það var líka önnur nefnd á vegum félagsmálaráðuneytisins sem komst að mjög framsæknum niðurstöðum og álitlegum. Ég sé engin merki þess að það markverðasta í vinnu þessara tveggja nefnda sé í þessu frumvarpi.

Ég ætla að rekja vonbrigði mín nánar í ræðu á eftir en mig langar bara að spyrja hæstv. ráðherra út í það af hverju hann fellir niður eða hefur ekki í frumvarpinu heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá eins og nefndirnar tvær sem ég minntist á lögðu til að yrði gert. Mig langar að orða spurninguna svona: Ef dómari kemst að þeirri niðurstöðu að það sé barni fyrir bestu (Forseti hringir.) að foreldrar fari sameiginlega með forsjá, af hverju má dómari ekki dæma á þá lund?