139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

barnalög.

778. mál
[17:44]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Mig langar samt að spyrja hvort vinnan sé hafin af því að það kemur fram í frumvarpinu að ákveðin sýslumannsembætti eigi að ráða sér sérfræðinga en á öðrum stað er talað um að það þurfi að útfæra hvernig minni sýslumannsembætti sinni þessari þjónustu. Ég hnýt um það. Breytingin er góð en hvernig á að útfæra hana? Mér finnst lagt af stað án þess að búið sé að klára málið.

Hæstv. ráðherra talar um að taka upp viðræður við sveitarfélögin. Það kemur reyndar ekki fram að það eigi eftir að ræða við sveitarfélögin heldur að hæstv. innanríkisráðherra eigi að hagræða í ráðuneyti sínu til að eiga fyrir þessu. Mig langar því að fá það algerlega á hreint hvort ekki verði örugglega tryggt fjármagn í þetta, annars er greinin ónýt.