139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

barnalög.

778. mál
[18:02]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Varðandi tvöfalt lögheimili sem hv. þingmaður vék að er það eflaust nokkuð sem vert er að skoða en ég vek athygli á því að almenna reglan er sú að hver einstaklingur hafi eitt lögheimili. Það lýtur fyrst og fremst að ýmsum réttindum og er tæknilegs eðlis en hvað innihaldið áhrærir, ef allt er í góðri sátt og foreldrar koma sér saman í þeim tilvikum sem mér fannst hv. þingmaður vísa til, eru málin sem hann lýsir í sátt. Markmið okkar í erfiðum málum er náttúrlega að reyna að færa og þróa samböndin í slíkan farveg. Út á það gengur það.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að almenna reglan er sú að forsjá barna er sameiginleg. Í erfiðum málum þegar deilur rísa og mál fara fyrir dómstóla er hugmyndin sú að reyna, eins og ég hef áður getið um og við öll verið að ræða, að beina deilumálum í sáttafarveg.

Geðþóttaákvörðun? Nei, ég vísa til reynslu frá Norðurlöndum sem mjög margir telja ekki vera sem skyldi. Í of mörgum tilvikum þar sem dómur hefur dæmt sameiginlega forsjá hefur það ekki gengið upp og reynst vera til ills. Að stíga varlega til jarðar í mínum huga er að skoða reynsluna af þessum praxís. Sú er hugmyndin, áður en við stígum skref sem margir telja ekki vera góða reynslu af. En mér heyrist að um hitt séum við öll sammála sem tekið höfum þátt í umræðunni, að mjög sé til góðs að efla sáttaleiðina, kalla til sérfræðinga og verja fjármunum til þess. Hér hefur verið bent á að þeir þurfi að sjálfsögðu að vera til staðar.

Varðandi að hér hafi áður legið fyrir framsæknari tillögur og þá vísar hv. þingmaður fyrst og fremst í hugmyndir um að dómari geti fyrirskipað sameiginlega forsjá þegar deilur eru með foreldrunum. Mér finnst það ekki vera framsækni ef reynslan er sú að það reynist í of mörgum tilvikum vera til ills. Ég er einfaldlega að hvetja til þess að við skoðum niðurstöðu rannsókna sem verið er að gera á Norðurlöndum um þetta efni áður en við stígum þessi skref.

Ég get hins vegar tekið undir með hv. þingmanni að grundvallarsjónarmiðið á að vera að tryggja í fyrsta lagi rétt barns til beggja foreldra og tryggja réttindi beggja foreldra. Það er auðvitað markmiðið sem við hljótum að setja okkur. Reynslan kennir hins vegar að í mjög harðvítugum deilumálum, ég tala ekki um þegar ásakanir um andlegt eða líkamlegt ofbeldi eru annars vegar, þurfi að fara varlega. Bent hefur verið á að þannig er því miður kaldhamraður veruleikinn í allt of mörgum tilvikum á Norðurlöndum. Það er staðreynd.