139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

barnalög.

778. mál
[18:07]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi dómaraheimild til að dæma sameiginlega forsjá, þá var ein meginástæðan fyrir því að nefndirnar tvær sem ég nefndi komust að þeirri niðurstöðu að taka ætti hana upp hér, að þær höfðu einmitt skoðað rannsóknir á Norðurlöndum og reynsluna þar. Það liggur fyrir. Það eina sem núna hefur breyst er að ráðherrann vill skoða reynsluna aftur.

Ég held að hægt sé að skoða með ýmsum hætti reynslu af ákvörðunum dómara í skilnaðarmálum. Hafa þær á allan hátt verið farsælar fyrir barnið hér á landi þar sem dómaraheimild er ekki til staðar? Hefur sú rannsókn farið fram? Hefur niðurstaðan reynst farsæl í öllum tilvikum? Meginreglan er sú að móðurinni er yfirleitt dæmd forsjáin. Hefur farið fram einhver yfirgripsmikil rannsókn á því hvort það sé rétt fyrirkomulag? Ég bendi á að nágrannaþjóðirnar hafa þetta fyrirkomulag. Gerð var rannsókn í Danmörku og ákveðið að halda því fyrirkomulagi áfram, ef ég man rétt.

Mér er fyrirmunað að skilja, eftir alla þessa rannsóknarvinnu og horfandi á þá staðreynd að dómaraheimild er til staðar í öllum nágrannalöndum og í þeim ríkjum sem við berum okkur saman við, af hverju í ósköpunum við erum ekki komin á þann stað að hæstv. innanríkisráðherra sé reiðubúinn að stíga þetta skref í íslensku þjóðfélagi.