139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

barnalög.

778. mál
[18:09]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er aldrei farsælt fyrir barn þegar miklar og harðvítugar deilur ríkja á milli foreldra þess um forsjána. Það er aldrei farsælt og við horfum upp á mörg erfið tilvik. Ég nefndi að það væri ástæða fyrir allsherjarnefnd að mínu mati að skoða hvort yfirleitt eigi að vera heimild fyrir því í lögum að sækja barn inn á heimili með lögregluvaldi. Ég hef um það mjög miklar og vaxandi efasemdir.

Varðandi rannsóknir og skýrslur sem gerðar hafa verið á Norðurlöndum hefur athygli mín verið vakin á því að þar eru vaxandi efasemdir um að þessi praxís eða reynslan af honum hafi verið góð. Athygli mín hefur verið vakin á skýrslum sem verið er að vinna núna og ég hef áhuga á að við Íslendingar skoðum þær og tökum til umræðu áður en við gerum breytingar á lögum hvað þetta snertir. Ég tel umræðu um þetta vera mjög góða og ég tel að á Norðurlöndunum, áður en menn fóru inn á þessa braut, hefði verið mjög gott að taka mikla og kröftuga umræðu um þetta, ekki bara í pólitíkinni heldur líka gagnvart réttarkerfinu vegna þess að þetta snýst líka um afstöðu manna þar. Stundum hefur skort á að réttarkerfið og stjórnmálin og samfélagið talist nógu vel og kröftuglega við.