139. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2011.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða örlítið skoðanir mínar á umræðunni í fjölmiðlum undanfarið um hvernig hv. þingmenn tala hver til annars og um hver annan í fjölmiðlum og jafnvel í þinghúsinu. Ástæðan er held ég öllum kunn. Mjög þung orð hafa fallið nýlega í garð þingmanns og þingmanna og í rauninni finnst mér það setja þingið mikið niður.

Okkur er tíðrætt um virðingu Alþingis og hvernig þingmenn og Alþingi geti bætt ímynd sína. Sú framganga sem við urðum vitni að fyrir skemmstu þegar höfð voru stór orð um aðra þingmenn, þeir kallaðir illum nöfnum, jafnvel mjög niðrandi nöfnum sem bera vott um ákveðna fyrirlitningu, það er okkur ekki til sóma. Ég held að þingmenn sem gera slíkt skuldi félögum sínum afsökunarbeiðni, í það minnsta að þeir skýri mál sitt með einhverjum hætti.

Ég held líka að það sé umhugsunarefni fyrir forustumenn þeirra flokka sem viðkomandi þingmenn sitja í að þeir taki á slíkum málum innan flokksins. Það er óþolandi að verða vitni að þessu. Þetta setur alla þingmenn á sama stall sem er óásættanlegt. Ég vil hvetja virðulegan forseta til að beita þeim ráðum sem hann hefur til að taka á málum sem þessum en vitanlega nær lögsaga forseta lítið út fyrir veggi þingsalarins. Því þurfa forustumenn flokkanna að grípa inn í og til þess vil ég hvetja.