139. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2011.

störf þingsins.

[14:06]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Frú forseti. Í aðdraganda kjarasamninganna komu ríkisstjórn og stjórnvöld að lausn þeirra mála og í kjölfar samninganna var tilkynnt um umfangsmiklar aðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar til að koma til móts við launafólk og almenning í landinu. Ég verð að segja eins og er að mér finnst viðbrögð stjórnarandstöðunnar við þessum aðgerðum, sem eru einar þær víðtækustu sem nokkur ríkisstjórn hefur gripið til hér á landi, vera með eindæmum.

Í Morgunblaðinu 6. maí, með leyfi forseta, var haft eftir formanni Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarna Benediktssyni um þetta mál:

„Bjarni Benediktsson sagðist í gærkvöldi hafa verulegar áhyggjur af því sem hann læsi í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um málið. Sér virtist að bæði ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins væru að lofa upp í ermina á sér hlutum sem engin innstæða væri fyrir.“

Í sama streng hefur hv. þm. Þór Saari tekið og segir líklegt að engin innstæða sé fyrir áætlunum ríkisstjórnarinnar og hann hvetur reyndar verkafólk til að fella þá samninga sem nýverið voru gerðir. Annar forustumaður stjórnarandstöðunnar, hv. þm. Birkir Jón Jónsson varaformaður Framsóknarflokksins, telur að ekki sé innstæða fyrir samningunum eða aðkomu ríkisstjórnarinnar að þeim og telur reyndar að aðkoma ríkisstjórnarinnar að lausn samninganna beri vott um að efnahagsstefna stjórnarinnar hafi beðið skipbrot, svo furðulegt sem það nú er.

En hvað vill stjórnarandstaðan? Hvar telur stjórnarandstaðan að ríkisstjórnin og stjórnvöld hafi gengið of langt við að verja hag almennings í landinu? Upp á hvað býður þá stjórnarandstaðan? Vill stjórnarandstaðan ganga skemur í að hækka atvinnuleysisbætur? Vill stjórnarandstaðan ganga skemur í að auka framlög til Fæðingarorlofssjóðs? Vill hún ganga skemur í að auka framlög til menntamála? Vill hún hætta við hækkun almannabótakerfisins? (Forseti hringir.) Hvað vill stjórnarandstaðan? Hvar gengu stjórnvöld of langt í að bæta kjör almennings í landinu, svo rækilega að stjórnarandstaðan fór á taugum?