139. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2011.

störf þingsins.

[14:11]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir að vekja máls á þeirri líflegu og ánægjulegu viðbót sem varð við fiskveiðiflóruna fyrir tveimur árum þegar strandveiðar voru teknar upp í einhverjum mæli við Íslandsstrendur. Strandveiðar eru ekki stór atvinnuvegur. Þær eru hins vegar miklu frekar viðurværi. Mér er engin launung á því að ég er stuðningsmaður strandveiða, vil efla þær frekar frá því sem nú er og vil gjarnan að fleiri aflaheimildum verði varið til þeirra. Ég er ekki ein um þá skoðun. Ég vil benda á að nú liggur fyrir Evrópuþinginu ályktunartillaga sem liður í umbótum á sameiginlegri fiskveiði- og sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, um að beina sérstaklega sjónum að strandveiðum sem vistvænni atvinnugrein og góðum valkosti í sjávarútvegi.

Ég hef ekki snúið frá þeirri stefnu minni að frjálsar handfæraveiðar væru mjög æskilegar ef þær yrðu raunverulega frjálsar. Ég hef raunar ekki talað um allt árið enda held ég að ekki sé hægt að stunda frjálsar handfæraveiðar allan ársins hring en þann hluta ársins sem vel gefur á sjó og litlir bátar geta sótt sjó væri það náttúrlega mjög góður valkostur ef hægt væri að koma því á. En því yrðu auðvitað að fylgja ákveðnir skilmálar og einhvers konar stýring. Það er ekkert til sem heitir taumlaust frelsi, hvorki í þessum efnum né öðrum. Nú vona ég að þetta horfi til bóta. Við erum að fara að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu og ég á von á því að hagur strandveiðanna vænkist með þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru.