139. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2011.

störf þingsins.

[14:13]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil fjalla aðeins um fiskveiðistjórnarfrumvarpið sem væntanlegt er til þingsins og vinnubrögð þingsins, hvernig löggjafarvaldið kemur að vinnu við það frumvarp. Það hefur verið lokað inni hjá ríkisstjórnarflokkunum, þ.e. hjá framkvæmdarvaldinu og meiri hluta stjórnarflokkanna, síðan í haust eftir að hafa farið í gegnum opið samráð allra aðila sem taldir voru líklegir til að hafa hagsmuni eða áhuga á því sviði, 15–20 aðilar sem komu þar að í heilt ár.

Eðlilegt hefði verið að í kjölfarið hefði málið komið til þingsins til umfjöllunar, hvort sem tillaga um eitthvert slíkt kerfi hefði komið frá ráðuneytinu eða unnin í nefndum þingsins. Ég vil benda á að auðvitað er ekki gott að fela mál sem snertir mikilvæga atvinnugrein þjóðarinnar með þessum hætti. Ég get bent á að á sama tíma og vinna samráðshópsins hófst, hófst undirbúningsvinna Framsóknarflokksins að nýrri sjávarútvegsstefnu. Hún var unnin í opnu ferli í flokknum, í vinnuhópum og á ráðstefnu sem síðan endaði á flokksþingi Framsóknarflokksins í byrjun apríl. Síðan hefur stefnan legið fyrir á heimasíðu flokksins og sá sem hér stendur birti reyndar grein í Morgunblaðinu þar sem farið er yfir meginatriði hennar. Opið er sem sagt öllum þingmönnum og allri þjóðinni að fylgjast með þeirri stefnumörkun sem við framsóknarmenn leggjum til í þessum mikilvæga málaflokki en hjá ríkisstjórnarflokkunum hvílir leyndin yfir. Það getur ekki verið eðlilegt. Ég vildi því taka þetta upp, frú forseti, undir þessum lið, um störf þingsins, (Forseti hringir.) að við ættum að bæta verklag okkar í þessu, ekki síst hvað varðar mikilvægar atvinnugreinar.