139. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2011.

störf þingsins.

[14:22]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Virðulegur forseti. Þegar hv. þingmaður spyr hvað meiri hlutinn óttist er hún væntanlega að ræða um meiri hlutann í utanríkismálanefnd. Verð ég þá að segja að til þess að mál séu afgreidd frá utanríkismálanefnd eins og öðrum nefndum er brýnt að menn sæki nefndarfundi og það sé meiri hluti á nefndarfundum til þess yfirleitt að afgreiða mál. Það er eitt vandamál sem við er að glíma og hv. þingmaður ætti að kannast við.

Í annan stað vil ég segja að það kom fram í svari mínu til hv. þingmanns um svipað efni skömmu fyrir páska að ég hygg að tvær þingsályktunartillögur lúta að þessu máli sem við höfum til umfjöllunar í utanríkismálanefnd. Við ákváðum að bíða með afgreiðslu á þeirri tillögu sem hv. þingmaður er 1. flutningsmaður að meðan lyki fyrri umræðu um síðari tillöguna, sem fjallar um að draga aðildarumsókn að ESB til baka, þannig að við tækjum sameiginlega umræðu um þær tvær. Þetta upplýsti ég hv. þingmann um hér í þingsal. Það dróst hins vegar að ljúka fyrri umræðu um síðari tillöguna og henni lauk ekki fyrr en skömmu fyrir páska og þar af leiðandi hefur okkur ekki gefist ráðrúm til að afgreiða málin úr nefndinni eða kanna hvort það sé meiri hluti fyrir því að afgreiða málin úr nefndinni, sem er að sjálfsögðu forsenda fyrir því að málið fari þaðan út, og hvort menn gætu sameinast um einhverja tillögu um afgreiðslu á tillögunum báðum eða hugsanlega annarri ef það yrði niðurstaða nefndarinnar.

Málið er á dagskrá í utanríkismálanefnd eins og fjölmargar aðrar tillögur og þingmál sem við munum taka til umfjöllunar á næstunni.