139. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2011.

stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur o.fl.

87. mál
[14:41]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson flytjum breytingartillögu við þetta frumvarp. Markmið hennar er að við teljum að það fari best á því að orkufyrirtæki eins og Orkuveita Reykjavíkur sinni einungis kjarnastarfsemi sinni en ekki öðru. Samkvæmt núgildandi lögum geta þessi orkufyrirtæki gert nánast hvað sem er undir sólinni eins og dæmi um Línu.Net, risarækjueldi, hörverksmiðju, ljósmyndabanka og sumarhúsabyggingar bera glöggt merki. Við viljum endurskoða þessar heimildir og afnema þær til að koma í veg fyrir slík fjárfestingarævintýri í framtíðinni á kostnað almennings og leggjum því þessar breytingartillögur fram.