139. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2011.

íslensk matvælaframleiðsla og matvælagerð.

[15:01]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir það að matvælaframleiðslan og landbúnaðurinn er almennt mikilvægasta og um leið viðkvæmasta atvinnugreinin í hverju landi eins og hér var rakið ágætlega. Landbúnaður okkar er þó mjög háður innfluttum aðföngum og er mikill akkur að því til framtíðar, til að byggja undir og treysta landbúnaðinn, að draga úr því vægi, t.d. með því að auka notkun á innlendum orkugjöfum í landbúnaði almennt. Við erum mjög háð innflutningi á áburði, vélum, olíu, plasti, kjarnfóðri til svína og kjúklingaræktunar o.fl. Sjónum er ágætlega varpað á mikilvægi landbúnaðar og matvælaframleiðslunnar þegar hamstur birgja á hrávörum á undanförnum árum hefur oft og tíðum keyrt upp verð á einstökum vörutegundum þannig að heilum þjóðum í Afríku og þriðja heiminum er ógnað með hungursneyð og skorti. Þá sjáum við vel hvað við Íslendingar búum vel að eiga öflugan landbúnað sem nýtur sem betur fer stuðnings þvert á flokka eins og við höfum séð í búvörusamningsgerð síðustu ára á Alþingi. Þeir hafa verið afgreiddir með þorra atkvæða þingmanna úr öllum flokkum.

Ég tek undir að það er líka fagnaðarefni að umræða um mikilvægi þess að flytja inn matvæli til að lækka verð á innfluttri vöru hefur verið mjög á undanhaldi sem slík. Umræðan um aðild að Evrópusambandinu byggist ekki á því þrátt fyrir slík atriði, heldur auðvitað út af sóknarfærum í upptöku nýrrar myntar. Hvernig landbúnaðurinn kemur út úr aðildarsamningi við Evrópusambandið á næstu mánuðum ræður að mínu mati úrslitum um það hvort slíkur samningur yrði samþykktur. Landbúnaðurinn er þar algjört lykilatriði, enda nýtur hann stuðnings þvert á þjóðfélagshópa og búsetu í landinu. Við eigum að vera stolt af því og gera allt sem við getum til að byggja undir og efla (Forseti hringir.) íslenskan landbúnað.