139. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2011.

íslensk matvælaframleiðsla og matvælagerð.

[15:03]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við Íslendingar allir eigum að vera stoltir af landbúnaðinum okkar. Skömmu eftir hrun talaði ég um að bændur hefðu verið varagjaldeyrisforðinn okkar því að ekki hefði verið gott fyrir þjóðina að þurfa að byggja allar matvörur sínar á innflutningi eins og berlega kom í ljós þar sem gjaldeyrisvaraforðinn þurrkaðist nánast út á einni nóttu.

Það gleður mig að heyra skilning hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á þeirri heimsmynd sem við búum við, þeim heimsvanda er snýr að ræktun til framtíðar og landplássi fyrir landbúnaðarframleiðslu. Mannfjöldaspá heimsins er óhugnanleg og þess vegna þarf að grípa strax í taumana. Ég fagna því sérstaklega að Bændasamtök Íslands séu mjög meðvituð um þennan heimsvanda og hafi þegar kynnt hann. Svo tekur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra undir það.

Hagsmunir þéttbýlisins eru mjög miklir í því að hér sé rekinn öflugur landbúnaður. Það eru hagsmunir þéttbýlisins að hér séu íslenskar og hollar landbúnaðarvörur. Hvað gætum við annað gert hér en að styðja við íslenskan landbúnað þar sem mesta neyslan fer fram?

Samfylkingin hefur verið dugleg að tala íslenskan landbúnað niður. Þó að hér hafi komið kjördæmakjörinn sunnlenskur þingmaður í ræðustól áðan og látið líta út sem svo væri ekki (Gripið fram í.) hefur Samfylkingin ætíð talað landbúnaðinn niður. (Gripið fram í.) Því miður. Fyrir hrunið var rætt um að flytja yrði inn mat til að íslenskt vöruverð héldist í hendur við hið evrópska. Stanslaus blekking eins og annað sem frá þessum flokki kemur, því miður, (Gripið fram í.) en ég tek undir að hér þarf að laga ytri aðbúnað fyrir landbúnaðinn, eins og það að setja á stofn áburðarverksmiðju og taka upp grænt eldsneyti. Þá getum við sparað enn meiri erlendan gjaldeyri svo þessi atvinnugrein fái þrifist hér enn betur. (Gripið fram í.)