139. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2011.

íslensk matvælaframleiðsla og matvælagerð.

[15:08]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir þessa tímabæru umræðu. Eins og fram hefur komið er fyrirsjáanlegur matvælaskortur í heiminum. Við höfum séð þess stað og sáum þess stað í kjölfar hrunsins með þeim hörmulegu afleiðingum sem það mun hafa í för með sér. Það er því gríðarlega mikilvægt að við stöndum vörð um viðgang og eflingu matvælaframleiðslu í landinu. Ef við gætum þess ekki gæti verið orðið of seint að grípa til aðgerða þegar síhækkandi matvælaverð fer að hafa alvarlegar afleiðingar hér á landi.

Við eigum mikla möguleika í víðfeðmu landi sem þrátt fyrir að vera harðbýlt að mörgu leyti býður upp á mikil tækifæri og aukna fjölbreytni. Við höfum séð þess stað í íslenskri matvælaframleiðslu að vöruþróun hefur verið gríðarleg á síðustu árum. Það er auðvitað jákvætt og við þurfum að ýta undir þetta starf og efla það enn frekar. Það þarf að auka fjölbreytni framleiðslueininganna. Það þarf að gefa smærri framleiðslueiningum mikinn stuðning, bæði hins opinbera og ekki síst stofnana þess opinbera. Ég hugsa til dæmis til samtakanna Beint frá býli sem ég held að geti aukið mjög flóru íslenskrar matvælaframleiðslu á komandi árum.

Við megum ekki festast í of þröngu regluverki á sama tíma og við verðum auðvitað að gæta þess að viðhalda þeim hreinleika og þeim náttúruafurðum sem við höfum í íslenskri matvælaframleiðslu. Tækifærin eru til staðar og samkeppni landsins hefur aukist þannig að það er ekki útlit fyrir annað en að aukinn útflutningur verði á íslenskri matvælaframleiðslu, bæði í fiski og kjöti.

Með þessi sóknarfæri í huga þurfum við að efla til muna íslenskan landbúnað og íslenskan sjávarútveg (Forseti hringir.) og muna að bóndi er bústólpi.