139. löggjafarþing — 122. fundur,  11. maí 2011.

uppbygging Vestfjarðavegar.

743. mál
[15:38]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Þegar við tökum ákvarðanir í samgöngumálum setjum við okkur fyrst markmið, síðan tryggjum við fjármagnið og að því búnu framkvæmum við. Markmiðin sem við leggjum höfuðáherslu á er að tryggja öryggi í samgöngukerfinu og síðan greiðar samgöngur. Um það erum við sammála, ég og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, að Vestfirðir og Vestfjarðakjálkinn hefur að mörgu leyti setið á hakanum hvað þetta snertir. Vestfirðingar búa við erfiðari samgöngur en aðrir landshlutar. Þess vegna er það mín skoðun mjög eindregið að við eigum að leggja áherslu á vegabætur á Vestfjörðum. Nýlega ákvað ríkisstjórnin sérstakt aukaframlag til samgöngubóta á Vestfjörðum sem átti að gera tvennt í senn, að stuðla að auknu öryggi og reyndar einnig að skapa sem flestum vinnandi höndum verkefni. Ákveðið var að verja 350 milljónum til þessa, breikkun einbreiðra brúa á tveimur stöðum, annars vegar nærri Ísafjarðaratvinnusvæðinu og hins vegar sunnan til á Vestfjarðakjálkanum í grennd við Patreksfjörð. Þetta er svona er lýsandi um þann ásetning okkar að láta fjármuni öðru fremur renna til Vestfjarða.

Hv. þingmaður víkur að Vestfjarðavegi nr. 60 sérstaklega og að þeim deilumálum sem hafa risið þar um hvar vegurinn eigi að liggja. Þar hafa deilur einkum snúist um Teigsskóg eða hvaða leiðir skuli þar farnar. Hér sýnist sitt hverjum. Íbúar á Patreksfirði og sunnanverðum Vestfjörðum hafa lagt áherslu á Teigsskógarleiðina. Aðrir hafa lagst gegn henni, m.a. af umhverfissjónarmiðum. Síðan á hagsmunagæslumaður pyngjunnar, sem ég á að vera í bland að sjálfsögðu, að horfa til þess hvað er hagkvæmt og hver er markvissust ráðstöfun fjármuna. Ég hef sagt á fundum með Vestfirðingum og öðrum að nú verði allir að gera svo vel að stíga upp úr gömlum hjólförum og vera reiðubúnir að hugsa upp á nýtt. Ég segi að á Vestfjörðum sem annars staðar hvílir sönnunarbyrðin á þeim sem vill fara aðrar leiðir en þá sem er ódýrust. Það er bara þannig. Teigsskógarleiðin er ekki ódýrasti valkosturinn. Það getur verið að það sé besti valkosturinn en það er ekki ódýrasti valkosturinn. Það er það ekki. (Gripið fram í.) Við þurfum því að ræða þessi mál út frá öllum þessum sjónarmiðum: Hvernig tryggjum við greiðastar samgöngur? Hvernig tökum við tillit til umhverfissjónarmiða? Hvernig verjum við fjármunum á sem markvissastan hátt?

Eins og fram kom á fundi ríkisstjórnarinnar á Ísafirði þann 15. apríl sl. munu stjórnvöld leggja á það sérstaka áherslu á samstarfsvettvangi með heimamönnum að fara yfir möguleika á sáttaleið á þessum hluta Vestfjarðaleiðar sem hv. þingmaður vísar hér sérstaklega til og almennt að leita leiða til að flýta framkvæmdunum á veginum um Barðaströnd. Ég mun ekki kynna nein sérstök áform fyrr en í kjölfar slíkrar yfirferðar.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson spyr hvort þessi samráðsvettvangur hafi verið myndaður og hvort einhver skref hafi verið stigin? Nei, það hefur ekki enn verið gert. Við höfum komið okkur saman um að hafa þennan háttinn á og það verður gert núna á komandi vikum.