139. löggjafarþing — 122. fundur,  11. maí 2011.

uppbygging Vestfjarðavegar.

743. mál
[15:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Allt þetta mál er í senn undarlegt og sorglegt. Í ársbyrjun 2007 staðfesti þáverandi umhverfisráðherra að fara mætti þá leið sem mest er rætt um, þ.e. í gegnum Teigsskóg. Sú ákvörðun var kærð og í raun felldur mjög undarlegur dómur í þá veru að umhverfisráðherra mætti ekki taka tillit til umferðaröryggis. Það er mjög sérstakt að verða vitni að slíku. Hæstv. núverandi innanríkisráðherra sagði með réttu að öryggismál og síðan greiðar samgöngur væru forgangsatriði. Við hljótum að vera sammála um að það hafi verið mikil mistök þegar dómurinn varðandi Teigsskóg féll og því hljóta þingmenn að geta sammælst um að samþykkja frumvarpið sem hér liggur fyrir um að fara þessa leið.

Það er öllum ljóst að það er óásættanlegt að svo stór hluti landsmanna sem þarna býr og svo stór hluti landsins skuli vera nánast vegalaus stóran hluta ársins.