139. löggjafarþing — 122. fundur,  11. maí 2011.

uppbygging Vestfjarðavegar.

743. mál
[15:49]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það eru víða vondir vegir og einna verstir á sunnanverðum Vestfjörðum. Víða um land eru tengivegir sem áður voru skilgreindir sem slíkir og nýttir sem stofnbrautir annars staðar. Þeir eru í engu skárra ásigkomulagi en stofnbrautir á sunnanverðum Vestfjörðum og þarf auðvitað að horfa til þess.

Ráðherra kom inn á að fyrst og fremst þyrftu menn að setja sér markmið um hvað þeir ætluðu sér og sinna síðan fjármögnun og fara því næst í framkvæmdir. Ég ætla að ræða aðeins fjármögnunina vegna þess að hún er augljóslega það sem stendur okkur fyrir þrifum. Ég kom með þá tillögu í pontu um daginn, sem hefur komið víðar fram, að stofnaður yrði sérstakur stórverkefnasjóður sem hugsanlega yrðu markaðar sértekjur, hálf eða ein króna af hverjum bensín- og olíulítra færu í hann og jafnframt veggjöld sem yrðu þá tekin af þeim sem keyra um 2+2 vegi um land allt og eins um 1+1 göng til að jöfnuður gilti yfir landið. Í þann sjóð gætu safnast ágætisfjármunir sem m.a. mundu nýtast til að fara í nauðsynlegar stórframkvæmdir eins og (Forseti hringir.) í gegnum Teigsskóg, sem ég styð eindregið.