139. löggjafarþing — 122. fundur,  11. maí 2011.

uppbygging Vestfjarðavegar.

743. mál
[15:55]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Já, hér eru allir sammála um að það sé ráð að við stígum upp úr gömlum hjólförum og hugsum af raunsæi um þessi mál. Ef við erum sammála um það í þessum sal að forgangsraða Vestfjörðum, að verja þeim fjármunum sem við höfum til samgöngumála þangað í ríkara mæli hlutfallslega en til annarra landshluta, þá fagna ég því vegna þess að við höfum takmarkaða fjármuni til ráðstöfunar. Við verðum að vera sjálfum okkur samkvæm þegar við ræðum þessi mál. Ég hef orðið var við það á ferli mínum í þessu embætti að þingmenn hafa komið í alla landshluta og haft uppi stór orð af því tagi sem við höfum heyrt, væntanlega með bólgna vasa af seðlum, en fjármunir eru takmarkaðir.

Við, þingmenn, sveitarstjórnarmenn og vegagerðarfólk, höfum átt í erfiðleikum varðandi sunnanverða Vestfirði vegna þess að óeining hefur verið um hvaða leiðir eigi að fara. Við reynum núna að komast upp úr hjólförunum hvað það snertir. Mönnum liggur mikið á að fá niðurstöðu hið allra fyrsta og ég tek undir það. Aðalmálið er náttúrlega að fá niðurstöðu sem sátt er um. Í þessari stuttu umræðu komu fram mjög misvísandi upplýsingar og sjónarmið. Annars vegar heldur fyrrverandi hæstv. samgönguráðherra því fram að Teigsskógur sé ódýrasta lausnin. Hv. fyrirspyrjandi, Einar K. Guðfinnsson, tók hins vegar undir ábendingar mínar um að svo væri ekki, en telur að af öryggissjónarmiðum og vegna vilja íbúa á svæðinu beri að fara þá leið. (Forseti hringir.)

Við erum þó sammála um eitt: Það þarf að ráða þessum málum til lykta. (Forseti hringir.) Og við erum sammála um hvernig það skuli gert: Setja á laggirnar samráðshóp sem (Forseti hringir.) fer rækilega yfir þessi mál.

(Forseti (SF): Forseti ítrekar að hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar eigi að halda sig við ræðutímann.)