139. löggjafarþing — 122. fundur,  11. maí 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar á Miðnesheiði.

772. mál
[16:09]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessari umræðu og fyrirspurn hv. þm. Eyglóar Harðardóttur. Ég verð að segja að ég komst að sömu niðurstöðu og hún, þ.e. að þetta minnisblað sem unnið var fyrir hæstv. innanríkisráðherra benti til þess að best væri að flytja Gæsluna á Suðurnes. Fram kom að húsnæði væri of lítið núna miðað við skilgreindan lágmarksviðbúnað sem menn eru sammála um að eigi að vera hjá flugflota Gæslunnar. Það er tilbúið hús suður frá. Það eru margir þættir inni í kostnaðarmatinu sem ég tel að væru óþarfir að sinni og held því að hæstv. ráðherra sé á réttri braut þegar hann segir að þetta þurfi ekki að gerast allt í einu vetfangi. Þarna var til dæmis mjög stór hluti kostnaðarins til kominn vegna breytinga sem þarf að gera vegna lægis varðskipa suður með sjó, ég held að þau geti um tímasakir verið áfram hér.

Það blasir við að menn eru ekki að fara í neina uppbyggingu á Reykjavíkurflugvelli og að núverandi aðstaða þar mætir ekki þörfum Gæslunnar. Ég hvet hæstv. ráðherra til að láta vinna nýtt heildstætt mat á þeim kostnaði (Forseti hringir.) sem þetta gæti haft í för með sér og jafnframt þeim ávinningi sem þarna gæti verið á ferð.