139. löggjafarþing — 122. fundur,  11. maí 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar á Miðnesheiði.

772. mál
[16:10]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu, hún er þörf bæði hvað varðar þau loforð sem gefin voru varðandi það að skoða það að flytja Gæsluna og til að vekja athygli á þeirri stöðu sem Landhelgisgæslan er í í dag.

Rætt er um að til skamms tíma litið sé þetta ekki hagkvæmt. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort við getum ekki verið sammála um að það hljóti að vera markmið okkar allra til langs tíma litið að styrkja Gæsluna.

Við þurfum að styrkja Landhelgisgæsluna og ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé uppi á borðinu, svipað og hv. þm. Róbert Marshall kom inn á, að gera langtímathugun á því hvort það borgi sig ekki, miðað við þann stað sem við viljum hafa Landhelgisgæsluna á, að gera aðra úttekt með það í huga að flytja hana á Suðurnesin.